U18 kvenna:

Finnur með hárblásarann þrátt fyrir stórsigur

09.ágú.2017  20:03 Skúli Sig (skuli@karfan.is)

Liðið skoraði 117 stig gegn slöku liði Albaníu

 

U18 landslið Íslands áttu ekki í miklu basli í kvöld með lið Albaníu þegar liðin mættust í Dublin.  Skemmst frá því að segja þá sigruðu Ísland 117:34 og eins og tölurnar segja okkur nánast alla sögu þessa leiks. Strax eftir fyrsta leikhluta var staðan orðin 33:4 fyrir Ísland en okkar stúlku slökuðu augljóslega aðeins á varnarklónni í öðrum leikhluta því þá skoruðu Albanía 18 stig gegn 13 íslenskum stigum.  Finnur þjálfari liðsins hefur tekið góða ræðu í hálfleik því Albanía skoraði aðeins 13 stig næstu 20 mínútur leiksins og stórsigur leit dagsins ljós. 

 

Þóranna Kika Hodge var stigahæst með 33 stig og bætti við 8 fráköstum. Dagbjört Karlsdóttir kom henni næst með 21 stig og Birna Benónýsdóttir var henni næst með 20 stig. 

 

"Við vissum svo sem fyrir leik að við ættum að vera sterkari andstæðingur á pappírum en þá getur nú stundum verið erfitt fyrir ungt fólk að mæta rétt stillt til leiks en þessir snillingar sýndu heldur betur úr hverju þær eru gerðar og gáfu aldrei færi á sér. Barátta og yfirvegun til fyrirmyndar og stúlkurnar kláruðu verkefnið af fullum krafti eins og lagt var upp með. Allir leikmenn komust vel frá sýnu og var virkilega gaman að sjá að allar voru klárar í leikinn. Við erum þó alveg pollrólegar og með báðar fætur á jörðinni. Við erum farin að undirbúa okkur fyrir komandi verkefni í keppninni um sæti 9-16." sagði Finnur Jónsson þjálfari liðsins í samtali við Karfan.is eftir leik.

 

Það var aðeins þessi annar leikhluti sem var slæmur ef svo má segja um leik liðsins og hafði Finnur þetta um þann kafla að segja. "Jú vissulega gáfum við aðeins eftir í 2. hluta eftir frábæra byrjun, en í hálfleik stillti ég hárblásarann hóflega á rétt aðeins 4 af 10 og það var nóg til þess að stúlkurnar mínar komu hrikalega einbeittar til leiks í seinni hálfleik og kláruðu dæmið fagmannlega."