Podcast Karfan.is:

Ægir Þór mun leika erlendis á næsta tímabili

03.ágú.2017  07:17 Oli@karfan.is

Landsliðsmaðurinn Ægir Þór Steinarsson er gestur Podcasts Karfan.is sem kemur út síðar í dag. Þar ræðir hann um ferilinn og körfuboltann. Meðal þess sem rætt verður um er 4+1 reglan, Fjölnir, það að búa með Ragga Nat og ýmislegt fleira. Landsliðsverkefni nútíðar og þátíðar verða ofarlega á baugi enda framundan Eurobasket ævintýrið.

 

Ægir tryggði sér sæti í ACB deildinni á Spáni með liði sínu Burgos á síðustu leiktíð og segir frá draumi sínum að leika í bestu deildum heims. Ægir segir það hafa verið ljóst hjá Burgos að hann yrði ekki fyrsti kostur í leikstjórnanda stöðunni á næsta tímabili þrátt fyrir að leika lykilhlutverk á því síðasta. 

 

Eins og oft gerist fara kjaftasögurnar af stað og sagði til að mynda Fúsijama.tv frá því að Ægir ætti í viðræðum við Þór Ak fyrr í sumar. Ægir sagði í Podcastinu að hann hefði íhugað að koma heim og leika í Dominos deildinni á næsta tímabili. 

 

„Ég var á báðum áttum þegar ég kom heim. Ákvað þá að gefa færi á mér og kannski myndi ég vilja spila heima á næsta tímabili. Svo fann ég það þegar ég var búinn að vera heima í smá tíma að það var ekki ég í dag.“  sagði Ægir Þór í spjalli við umsjónarmenn hlaðvarpsins. Hann bætti við:

 

„Ég er bara 26 ára og ég mun spila úti næsta vetur. Samt sem áður var ég tilbúinn að skoða mína möguleika og gefa færi á mér hérna heima. Fjögur eða fimm lið höfðu samband við mig hérna. Mig langar að spila á hærra leveli þrátt fyrir að peningarnir séu ekki eins miklir á Spáni eða öðrum stöðum."

 

Samkvæmt Ægi er draumurinn að leika í ACB deildinni á Spáni og myndi hann þiggja boð Burgos að leika með liðinu þótt það myndi þýða að hann yrði annar kostur í stöðu leikstjórnanda hjá félaginu. Það er því ljóst að körfuboltaáhugamenn munu ekki sjá Ægi leika á íslenskri grundu nema með landsliðinu á næsta tímabili. 

 

Þetta og svo margt fleira kemur fram í podcasti Karfan.is þar sem Ægir Þór Steinarsson er gestur þátttarins. Þátturinn fer í loftið síðar í dag.