Eurobasket 2017:

Leikmaður Philadelphia heltist úr lestinni hjá Frökkum

02.ágú.2017  07:10 Oli@karfan.is

Franska landsliðið heldur áfram undirbúningi sínum fyrir Eurobasket 2017 en enn heltist úr lestinni hjá liðinu. Nú hefur það verið staðfest að leikmaður Philadelphia 76ers Timothe Luwawu-Cabarrot getur ekki tekið þátt í æfingum né mótinu sjálfu að þessu sinni vegna hnémeiðsla. 

 

Þetta tilkynnti franska körfuknattleikssambandið eftir síðustu helgi en Luwawu-Cabarrot mun þar með ekki leika sinn fyrsta A-landsleik fyrir Frakkland líkt og til stóð. Ekki hefur neinn leikmaður verið kallaður í hans stað í hópinn. 

 

Luwawu-Cabarrot er 22 ára og var valinn í nýliðavali NBA fyrir ári síðan. Hann var með 6,4 stig og 2,2 fráköst að meðaltali á 17 mínútum í leik á sínu fyrsta tímabili í NBA deildinni. 

 

Frakkland leikur með Íslandi í A-riðli Eurobasket en nú þegar hafa nokkrar stjörnur Frakklands hellst úr lestinni. Tony Parker Mickael Gelabale og Florent Pietrus hafa allir lagt skónna á hilluna. Auk þeirra eru Nicolas Batum, Rudy Gobert og Ian Mahinmi meiddir og geta ekki tekið þátt. 

 

A-riðill Eurobasket fer fram í Helsinki og hefst mótið eftir 29 daga.