Dominos deild kvenna:

Skallagrímur endurheimtir heimakonu

01.ágú.2017  08:07 Oli@karfan.is

Skallagrímur er í óðaönn þessa dagana að safna liði fyrir komandi átök í Dominos deild kvenna. Liðið sem stefnir nú í sitt annað tímabil í efstu deild endurheimti heimakonu á dögunum er liðið samdi við Heiðrún Hörpu Ríkharðsdóttir um að leika aftur með liðinu. 

 

Heiðrún Harpa er 25 ára bakvörður og er uppalin í Borgarnesi en lék síðast með liðinu í 1. deild kvenna árið 2011. Síðan þá hefur hún leikið með Fjölni fyrir utan eitt tímabil hjá Stjörnunni. Heiðrún hefur verið í stóru hlutverki hjá Fjölni síðustu árin en lék ekki með liðinu á nýliðinni leiktíð vegna barneigna. Tímabilið 2015-2016 lék Heiðrún 19 leiki og var með 10,4 stig og 6,9 stoðsendingara að meðaltali í leik. 

 

Skallagrímur var nýliði í Dominos deild kvenna á síðasta tímabili og komst í úrslit bikarkeppninnar og undanúrslit íslandsmótsins. Helsti veikleiki liðsins á síðasta tímabili var skortur á breidd í leikmannahópnum og ljóst að liðið ætlar að bæta úr því fyrir komandi leiktíð. 

 

Á dögunum réð félagið Richi Gonzalez til að þjálfa liðið auk þess sem liðið heldur svipuðum kjarna og á síðasta tímabili. Auk þess samdi stigahæsti leikmaður Dominos deildarinnar Carmen Tyson-Thomas við liðið á dögunum og Bríet Lilja Sigurðardóttir kom til liðsins frá Tindastól.