EM U18 karla:

Króatar of stór biti

01.ágú.2017  22:40 Oli@karfan.is

Leikið um sæti í átta liða úrslitum á morgun

Íslenska U18 landslið drengja tapaði sínum fyrsta leik í B-deild evrópumótsins sem fer fram í Eistlandi þessa dagana. Íslenska liðið leikur í B-riðli og hafði unnið alla leiki sína fyrir daginn í dag líkt og Króatía sem var andstæðingur Íslands í dag. 

 

Skemmst er frá því að segja að Ísland komst aldrei í takt við leikinn og eftir að staðan hafði verið 9-9 í byrjun leiks missti íslenska liðið algjörlega af lestinni. Króatía setti í 17-0 áhlaup sem má segja að hafi gert út af við leikinn strax í öðrum leikhluta. 

 

Króatía hélt áfram að auka muninn en staðn í hálfleik var 17-36 fyrir Króatíu. Það var einfaldlega of erfitt að elta eftir það og komst Ísland aldrei mikið nær. Króatía komst mest í 37 stiga forystu en Íslandi tókst þó að setja fleiri stiga á töfluna í seinni hálfleik en þeim fyrri. 

 

Lokastaðan 75-45 fyrir Króatíu sem er þar með búið að tryggja sér efsta sæti B-riðils en liðið hefur unnið alla leiki sína nokkuð örugglega, því ljóst að um ógnarsterkt lið er að ræða. Sigvaldi Eggertsson var stigahæstur með 13 stig og Arnór Sveinsson var með 12 stig auk þess sem Bjarni Guðmann Jónsson var með 6 stig og 6 fráköst. 

 

Tapið þýðir að Ísland verður að vinna Búlgaríu á morgun til að komast í átta liða úrslit mótsins. Búlgaría hefur unnið tvo og tapað tveimur líkt og Hvíta-Rússland en Ísland hefur unnið þrjá og tapað einum leik. Það er því mikil spenna í riðlinum en Ísland er í bílstjórasætinu með sæti í átta liða úrslit. Leikur Íslands og Búlgaríu fer fram kl 13:00 að Íslenskum tíma og verður í beinni útsendingu hér á Karfan.is.

 

Tölfræði leiksins

 

 

 

Mynd/ FIBA