U20 landslið karla:

Finnur segir skilið við U20 landsliðið: Held ég gæti ekki skilað liðinu af mér á betri stað

28.júl.2017  01:47 Oli@karfan.is

Íslenska U20 landsliðið náði á dögunum sögulegum árangri þegar liðið náði áttunda sætinu í A-deild evrópumótsins. Ísland lék í fyrsta skipti í A-deild og náði mögnuðum árangri. 

 

Finnur Freyr Stefánsson sem þjálfað hefur U20 liðið í þrjú ár hefur gefið það út að hann ætli ekki að halda áfram að stjórna liðinu. Þetta tilkynnti hann á Facebook síðu sinni en fimm dagar eru síðan evrópumótinu lauk. 

 

Finnur tók við liðinu árið 2014 og hefur stjórnað því í gegnum tvö norðurlandamót og tvo evrópumót. Ísland vann sig á þessum árum upp í A-deild Evrópumótsins og náði þessum magnaða árangri nú á dögunum til þess að halda sæti í A-deild áfram. 

 

„Þetta eru orðin ansi mörg löng timabil með KR, u20 og A landsliðinu undanfarin 4 ár og lítill tími til að ná "andanum" á milli. Ég er þakklátur fyrir traustið og tækifærið fyrir því að koma þessu liði af stað aftur eftir hlé.“ segir Finnur á Facebook síðu sinni og bætir við.

 

„Ég held ég gæti ekki skilað liðinu af mér á betri stað og er glaður fyrir hönd arftaka míns sem fær að upplifa lokamóts ævintýrið að ári.“

 

Finnur Freyr fær hinsvegar lítið frí í sumar þar sem hann er aðstoðarþjálfari A-landsliðsins sem hóf undirbúning fyrir Eurobasket á dögunum. Finnur segir fríið koma síðar og vonar að sú tilfinning verði góð. 

 

Pistil Finns má finna í heild sinni hér að neðan þar sem hann gerir upp árin og hvetur leikmenn til dáða til að ná enn lengra.