Háskólaboltinn

Elvar verðlaunaður fyrir framúrskarandi námsárangur íþróttamanna

25.júl.2017  18:30 Oli@karfan.is

Þrátt fyrir að sumarfrí sé frá keppni í Bandaríska háskólakörfuboltanum heldur Elvar Már Friðriksson áfram að sópa að sér verðlaunum þar ytra. 

 

Elvar sem leikur með Barry háskólanum í annarri deild háskólaboltans hlaut nokkrar viðurkenningar á nýliðnu tímabili. Hann var til dæmis valinn leikmaður ársins í sinni deild, þrisvar valinn leikmaður vikunnar auk þess að vera valinn í lið ársins í sínum landshluta. Hann var með 17,4 stig og 7,7 stoðsendingar að meðaltali í leik sem gerði hann að fimmta stoðsendingahæsta leikmanni landsins. 

 

Á dögunum fékk Elvar Már verðlaun sem veitt eru þeim leikmönnum í bandarískum háskólum sem ná framúrskarandi námsárangri auk þess að leika í efstu þremur deildum háskólaíþrótta. Til þess að fá þessi verðlaun þar samanlögð einkunn (GPA) yfir önnuna sem bandarískir háskólar reikna að vera yfir 3,2. 

 

Elvar var með einkunnina 3.235 (B+) á síðasta ári en hann stundar nám við Stjórnun í skólanum. Auk þess að leika stórt hlutverk í körfuboltaliði Barry háskólans. Allir háskólar geta veitt íþróttamönnum sínum þennan heiður en Elvar er sá eini frá Barry háskólanum sem hlýtur þessa viðurkenningu í ár.