Umfjöllun, viðtöl og myndir:

Fyrsti sigur Íslands í A-deild staðreynd

17.júl.2017  14:35 Oli@karfan.is

Tryggvi með magnaða frammistöðu

Ísland náði í magnaðan sigur á Svartfjallalandi á Evrópumóti U20 landsliða sem fram fer í Svartfjallalandi þessa dagana. Liðið byrjaði ákaflega illa í leiknum en kom til baka með ótrúlegum öðrum leikhluta. 

 

Ísland er þar með með einn sigur í riðlakeppninni og en það kemur í ljós í kvöld hverjum Íslenska liðið mætir í 16 liða úrslitum mótsins sem hefjast á miðvikudag. 

 

 

Gangur leiksins:

 

Ísland fór ákaflega illa af stað, orkuleysi gærdagsins virtist enn vera til staðar. Liðið var með einungis tvö stig á átta fyrstu mínútum fyrsta leikhluta. Svartfjallalands komst mest í 23-10 forystu og íslenska liðinu gekk illa. 

 

Annar leikhluti var hinsvegar magnaður hjá Íslandi. Varnarleikur liðsins skothélt, sjálfstraustið jókst og körfurnar fóru að detta. Liðið setti 10 stig í röð og náði muninum á skotstundu í þrjú stig. Pirringur Svartfellinga jókst mikið og stemmningin var algjörlega Íslands. Ísland komst yfir fyrir hálfleik 29-27 og stemmningin algjörlega Íslands. 

 

Þriðji leikhluti var í nokkru jafnvægi, Ísland hleypti Svartfjallalandi ekki mikið nær fyrr en undir lok leikhlutans. Vörn Íslands hélt nokkuð vel og Tryggvi Snær fór ansi illa með stóra leikmann Svartfjallalands. 

 

Pirringur og stælar Svartfellinga jókst mikið í fjórða fjórðung og tókst þeim ekki að setja neitt almennilegt áhlaup á Íslenska liðið til þess að gera þetta að spennuleik. Þegar mínúta var eftir af leiknum kallaði Finnur Freyr inná völlinn að leikurinn þyrfti að vinnast með 10 stiga mun til að ná þriðja sæti riðilsins. Það tókst með frábærri körfu Snjólfs Stefánssonar þegar lítið var eftir. 

 

Ísland vann því að lokum 60-50 sigur á liði Svartfjallalands. Þjálfari þeirra trylltist hreinlega eftir leik og lét dómara leiksins heyra það. Pirringur Svartfjallalands var mikill enda ljóst að liðið myndi enda í fjórða sæti riðilsins.

 

 

Tölfræði leiksins:

 

Nýting Íslands var mun betri en andstæðinganna, 44% gegn 36% hjá Svartfellingum. Ísland er með 36 stig inní teig Svarfjallalands en Tryggvi Snær réð öllu þar. Á móti voru stig Svartfjallalands í teignum einungis 20 en liðið var skíthrætt við að mæta Tryggva þar. Að auki fær Ísland 37 stig af bekknum sínum en Svartfjallaland einugis lítil fjögur stig. 

 

 

Hetjan:

 

Tryggvi Snær Hlinason á ofboðslega mikið í þessum sigri. Hann endaði með 19 stig, 13 fráköst og 3 varða bolta. Auk þess að hitta 64% í leiknum. Íslenska liðið leitaði mikið á hann í sókninni sem reyndist erfitt fyrir Svartfjallaland að bregðast við. Varnarlega breytti hann sóknarleik Svartfjallalands mikið með veru sinni í teignum. Blaðamenn hér í Krít halda vart vatni yfir frammistöðu Tryggva á þessu móti. Þeir spyrja ítrekað hvers vegna leikmaðurinn hefur ekki spilað erlendis og eru gapandi hissa þegar þeim er tjáð að ekki séu mörg ár síðan Tryggvi byrjaði að leika körfubolta. 

 

Þórir Þorbjarnarson var einnig frábær í dag og endaði með tólf stig og fimm fráköst auk þess sem Breki Gylfason átti mjög sterka innkomu. 

 

Kjarninn:

 

Sigurinn í dag var risastór. Þar sem liðið náði 10 stiga sigri kemst það upp fyrir Svartfjallaland í þriðja sæti riðilsins. Fyrir vikið sleppur Ísland við að mæta Grikklandi sem eru ógnarsterkir á þessu móti. Væntanlegir mótherjar Íslands verða Svíþjóð eða Þýskaland sem eru álítlegri kostir. Andstæðingarnir koma í ljós síðar í dag. 

 

Eftir daginn í dag hefst í raun nýtt mót. Öll lið komast í 16 liða úrslit en þar raðast liðin eftir árangri í riðlakeppninni. Möguleikar liðsins eru ágætir en andstæðingar Íslands í B-riðli voru gríðarlega sterkir og öll liðin líkleg til árangurs. 

 

Frammistaða liðsins í dag var frábær ef horft er framhjá fyrsta leikhluta. Að halda jafn sterku liði og Svartfjallalandi í 50 stigum er ótrúlegur árangur. Varnarleikur liðsins hefur verið mjög sterkur á mótinu og þegar sjálfstraustið í sóknarleiknum bætist ofan á það getur þetta lið gert ansi góða hluti. 

 

 

Myndasafn

 

Tölfræði leiksins

 

Viðtöl eftir leik: (Væntanlegt)

 

Umfjöllun, viðtöl og myndir / Ólafur Þór Jónsson

Forsíðumynd / FIBA