EM U20 karla:

Úr Sumardeild NBA beint í leik gegn Íslandi

16.júl.2017  13:30 Oli@karfan.is

Ísland mætir Tyrklandi í öðrum leik liðsins í A-deild Evrópumótsins í dag. Bæði lið töpuðu sínum leikjum naumlega í gær, Ísland gegn Frakklandi og Tyrkland gegn Svartfjallalandi. Leikurinn hefst kl 13:45 að íslenskum tíma og er í beinni útsendingu á Youtube rás FIBA.

 

Í liði Tyrklands er leikmaður að nafni Furkan Korkmaz sem samdi við lið Philadelphia 76ers fyrr í sumar. Furkan var valinn númer 26 í nýliðavali NBA deildarinnar fyrir ári síðan en lék eitt ár í viðbót í tyrknesku deildinni með Banvit. Þar var hann valin besti ungi leikmaður meistaradeildar evrópu auk þess að vinna tyrknesku bikarkeppnina. 

 

Samkvæmt fréttamiðlum vestanhafs hafði Philadelphia gefið Kurkmaz leyfi til að leika með tyrkneska landsliðinu á Eurobasket ef hann yrði valinn en vildi hafa hann í sumardeildinni. Liðið skipti hinsvegar um skoðun  á dögunum þegar ljóst var að þátttöku liðsins myndi ljúka fljótlega og leyfi Kurkmaz að leika með U20 liðinu á evrópumótinu. 

 

Kurkmaz var ekki með tyrkjum gegn Svartfjallalandi í gær en hann mun hafa ferðast frá Las Vegas í gær til Krítar móts við liðið. Hann ætti því að vera kominn og er samkvæmt mótshöldurum á skýrslu Tyrklands. Kurkmaz lék tvo leiki fyrir Philadelphia í sumardeildinni og var með 6,5 stig, 3 fráköst og 3 stoðsendingar að meðaltali í leikjunum. 

 

 

Mynd/ Eurosport - Furkan Korkmaz ásamt leikmönnum Philadelphia 76ers m.a. Markelle Fultz sem var valinn fyrstur í nýliðavalinu fyrir stuttu.