Umfjöllun, myndir og viðtöl:

Sterkt lið Tyrklands reyndist ofjarl Íslands

16.júl.2017  18:12 Oli@karfan.is

Meiðsli Kára gætu orðið dýr

Ísland lék gegn Tyrklandi rétt í þessu í öðrum leik B-riðils evrópukeppni U20 landsliða í Grikklandi. Eftir jafna byrjun komst Tyrkland yfir í öðrum leikhluta og gáfu ekkert eftir í baráttunni  eftir það. 

 

Ísland komst aldrei á skrið í seinni hálfleik og tapaði 82-66 gegn gríðarlega sterku liði Tyrklands. Tryggvi Snær Hlinason og Snjólfur Stefánsson voru stigahæstir hjá Íslandi. 

 

Umfjöllun um helstu þætti leiksins má finna hér að neðan: 

 

Gangur leiksins:

 

Leikurinn fór vel af stað fyrir Ísland í dag. Liðið var sterkt, setti fínar körfur og náði að stöðva sterk lið Tyrklands. Ísland leiddi 14-13 eftir fyrsta leikhluta og allt leit út fyrir jafnan leik. 

 

Kári Jónsson fyrirliði liðsins þurfti hinsvegar að fara af velli og á sjúkrahús í lok 1. leikhluta vegna ökklameiðsla og virtist sem liðið lenti í vandræðum eftir það. Tyrkland vann annan leikhluta 26-15, allt virtist mun erfiðara hjá Íslenska liðinu en hjá því Tyrkneska í leikhlutanum en tyrkir voru mjög harðir í dag. 

 

Staðan í hálfleik var 39-29 en í þriðja leikhluta bætti Tyrkland í foyrstuna þar sem það sama var uppá teningnum. Tyrkir komust upp með ansi harðan og líkamlegan leik á meðan íslendingar voru ekki nægilega klókir að svara í sömu mynt. 

 

Ísland reyndi hvað það gat til að koma til baka en allt kom fyrir ekki. Tyrkneska liðið hafði einfaldlega meiri orku í leiknum og Ísland varð einfaldlega undir í baráttunni. Ísland sýndi fína takta sóknarlega í fjórða leikhluta en það dugði ekki til. Lokastaðan 82-66 fyrir Tyrklandi og leitar Ísland enn að sínum fyrsta sigri. 

 

 

Tölfræði leiksins:

 

Annan leikinn í röð er það skotnýting íslenska liðsins sem svíkur þá. Liðið hitti 33% í leiknum gegn 47% nýtingu Tyrklands. Ísland tekur 21 sóknarfráköst og skorar 24 stig úr annari tilraun sem er mun meira en Tyrkland. Góðu fréttirnar eru að Ísland hittir 35,7% fyrir aftan þriggja stiga línuna sem er mikil bæting frá síðasta leik. 

 

Hetjan:

 

Tryggvi Snær Hlinason var atkvæðamestur í liði Íslands í dag. Hann var með 22 stig og 10 fráköst í leiknum. Hann var með  gróðarlega sterkan leikmann á sér í Omer Yurtsevin sem spáð er að muni leika í NBA deildinni í framtíðinni. Ef eitthvað þá hafði Tryggvi betur í þeirri baráttu. Mikið munaði einnig um framlag frá Snjólfi Marel Stefánssyni sem kom inn af bekknum og barðist gríðarlega. Hann endaði með 12 stig, 6 fráköst og 45% skotnytíngu í leiknum. 

 

 

Kjarninn:

 

Íslenska liðið virkaði eins og allur vindur væri úr því þegar leið á leikinn. Baráttan og áræðnin sem hefur einkennt íslensk landslið var ekki til staðar og þar sem tyrkneska liðið er sterkara og stærra en Ísland þá þarf eitthvað auka líkt og þessi atriði til að vinna leiki. Varnarleikur liðsins var á mörgum köflum mjög fínn og hélt hæfileikaríku liði Tyrklands niðri á löngum köflum. 

 

Liðið varð fyrir miklu áfalli í leiknum þegar Kári Jónsson leiðtogi liðsins þurfti frá að hverfa vegna meiðsla sem litu í fyrstu sýn út fyrir að vera alvarleg. Fyrstu fregnir eru góðar fyrir leikmanninn þar sem hann er óbrotinn en líklega tognaður. Það þýðir að þátttöku hans á þessu evrópumóti er að öllum líkindum lokið. Þetta gæti reynst ákaflega dýrt fyrir íslenska liðið enda Kári mikilvægur skorari fyrir liðið auk þess að vera fyrirliði liðsins. Fyrir vikið þurfa aðrir menn að stíga upp, Halldór Garðar tók við leikstjórnanda stöðunni í dag og stóð sig heilt yfir vel. Leikmenn á borð við Þóri þurfa að taka enn meira til sín sóknarlega ef Kári spilar ekki meir. 

 

Á morgun er það Svartfjallaland. Liðið sem vann Ísland í úrslitaleik B-deildarinnar fyrir ári síðan á lokaandartökum leiksins. Ísland hefur því harma að hefna gegn liðinu á morgun. Finnur Freyr segir Svartfjallaland vera með lægra lið nú enn í fyrra en liðið vann þó Tyrkland í fyrsta leik mótsins. Sigur á morgun þýðir að liðið sleppur við að mæta efsta liðinu í A-riðli sem verður líklega Grikkland í 16 liða úrslitum. Leikurinn á morgun er því gríðarlega mikilvægur fyrir möguleika Íslands á mótinu. 

 

 

Myndasafn

 

Tölfræði leiksins

 

Viðtöl eftir leik: 

 

Finnur Freyr Stefánsson þjálfari eftir leik

Snjólfur Marel Stefánsson leikmaður eftir leik

Breki Gylfason leikmaður eftir leik

 

Umfjöllun, viðtöl og myndir / Ólafur Þór Jónsson