U20:

Ísland náði loks í sigur gegn Írlandi

16.júl.2017  14:59 davideldur@karfan.is

Ísland 64 - 54 Írland

 

Undir 20 ára lið kvenna sigraði Írland í dag, 64-54, í B deild Evrópumótsins í Eilat í Ísrael, en leikurinn var hreinn úrslitaleikur um 11. sæti mótsins.

 

Líkt og í nokkrum fyrri leikjum liðsins á mótinu voru íslensku stelpurnar undir eftir fyrsta leikhluta, 14-21. Í öðrum leikhlutanum gera þær svo virkilega vel, vinna niður mun Írlands og eru 10 stigum yfir í hálfleik, 39-29.

 

Í seinni hálfleiknum gera þær svo vel í að halda forystunni, eru 8 stigum yfir eftir þrjá leikhluta 53-45 og sigla svo að lokum góðum 10 stiga sigri í höfn, 64-54.

 

Atkvæðamest í íslenska liðinu var Thelma Dís Ágústsdóttir, en hún skoraði 14 stig, tók 9 fráköst, gaf 4 stoðsendingar og stal 4 boltum á þeim 35 mínútum sem hún spilaði.