EM U20 karla:

Frábær leikur Tryggva dugði ekki til gegn Frakklandi

15.júl.2017  17:02 Oli@karfan.is

Fyrsti leikur Íslands á Evrópumóti U20 landsliða fór fram fyrr í dag. Ísland mætti þar Frakklandi en íslendingar leika í fyrsta skipti í A-deild mótsins í ár. 

 

Umfjöllun um helstu þætti leiksins má finna hér að neðan:

 

 

Gangur leiksins:

 

Það var auðsjáanlega nokkur skjálfti í íslenska liðinu í upphafi leiks. Mikið vantaði uppá baráttuna og illa gekk að stig á töfluna. Frakkland komst í 4-14 í fyrsta leikhluta og báðum liðum gekk illa að hitta fyrir utan málninguna. 

 

Íslenska vörnin hertist þó verulega í öðrum leikhluta. Frakkland setti ekki stig í rúmar fimm mínútur en Íslandi gekk verulega illa að minnka muninn að einhverju viti. Staðan að loknum öðrum leikhluta var 17-22 fyrir Frakklandi. Ísland var ekki með stig fyrir aftan þriggja stiga línuna og hitti engu af 12 skotum sínum þaðan. Stigaskorið dreifist illa en góðu fréttirnar voru að Frakklandi gekk litlu betur að setja stig á töfluna sökum þess að varnarleikur Íslands var mjög góður og því möguleikar Íslands enn til staðar. 

 

 

Það sama var uppi á teningnum í byrjun síðari hálfleiks. Hvortugt liðið var að hitta vel né tókst að setja saman almennileg áhlaup. Stemmningin virtist svo vera að færast yfir til Íslands í byrjun fjórða leikhluta er Tryggvi Snær Hlinason tróð boltanum tvisvar í röð svo harkalega að undirritaður var farinn að hafa áhyggjur af körfum húsins. 

 

Frakkland hleypti Íslandi hinsvegar aldrei frammúr sér og unnu að lokum sigur á Íslandi 58-50. 

 

Tölfræðin lýgur ekki 

 

Þriggja stiga nýting Íslands er 12,5% úr 32 skotum í leiknum. Það verður að þykja döpur nýting en frakkarnir hittu nær 30%. Það er helsti munurinn á liðunum tölfræðilega í leiknum. 

 

Hetjan:

 

Tryggvi Snær Hlinason átti algjöran skrímslaleik gegn sterku liði Frakklands. Hann endaði með 16 stig, 16 fráköst, 4 stoðsendingar, 6 varin skot og 32 framlagsstig. Hann reyndist Frakklandi ofboðslega erfiður á báðum endum vallarins og sýndi enn og aftur framfarir í sínum leik. Kristinn Pálsson átti líka ágætan leik endaði  með 14 stig og Halldór Hermann var duglegur að keyra að körfunni og var óhræddur við að berjast og djöflast allan leikinn. 

 

Kjarninn: 

 

Þegar allt er dregið saman er frammistaða Íslands í dag ljómandi fín. Liðið fór illa á skjálftanum í byrjun en varnarleikur og barátta liðsins var virkilega góð í dag en frakkar fengu nánast ekkert ókeypis síðustu þrjá leikhlutana. Það verður samt að segjast að tapið svíður, liðið hitti verulega illa og margir leikmenn eiga mikið inni sóknarlega. Því má segja að einungis hársbreidd hafi munað að Ísland hefði byrjað mótið á sigri gegn Frakklandi. Franska liðið var í litlum takti, mikið af klaufalegum mistökum og lítið af liðsheild. 

 

Það þýðir víst lítið að gráta það, frammistaðan var góð og framundan eru tveir mikilvægir leikir. Mótherjar Íslands á morgun er Tyrkland, í því liði eru leikmenn sem eru á samning við NBA lið og hafa verið orðuð við deildina uppá síðkastið. Róðurinn er því þungur en ef menn mæta enn ákveðnari og með sjálfstraustið í botni eru hæfileikar liðsins það miklir að liðið getur unnið Tyrkland. 

 

Myndasafn

 

Tölfræði leiksins

 

Viðtöl eftir leik: (Væntanlegt)

 

Umfjöllun, viðtöl og myndir / Ólafur Þór Jónsson