U20 landslið karla

Tap með einu stigi gegn Ítalíu

12.júl.2017  23:01 Oli@karfan.is

Ísland lauk keppni á æfingamóti fyrir evrópumót U20 landsliða sem hefst á næstu dögum. Íslenska liðið hefur leikið á gríðarlega sterku æfingamóti á Grikklandi síðustu vikuna. Í dag voru andstæðingarnir Ítalía sem endaði í fimmta sæti á evrópumótinu fyrir ári síðan. 

 

Leikurinn var nokkuð jafn og lítið sem bar á milli liðanna í fyrri hálfleik en Ísland leiddi að honum loknum. Slakur þriðji leikhluti kom ítölum yfir. Ísland kom til baka í þeim síðasta en niðurstaðan var eins stigs tap gegn Ítalíu. Ísland fékk tvö tækifæri til að jafna eða komast yfir í lokasókninni en Tryggvi Snær Hlinason fékk tvö víti í blálokin. Annað vítið vildi ekki ofan í og Ítalía fagnaði sigri. 

 

Þórir Guðmundur Þorbjarnarson var atkvæðamestur hjá Íslandi með 21 stig, 7 fráköst og 3 stoðsendingar. Tryggvi Snær Hlinason var einnig sterkur með 9 stig, 15 fráköst og 5 varin skot. Skotnýting Íslands var hinsvegar ekki nægilega góð og má segja að skilji liðin að í dag. 

 

Niðurstaðan af æfingamótinu eru þrjú töp en þar af tvö mjög naum töp gegn gríðarlega sterkum þjóðum. Heimamenn í Grikklandi líta út fyrir að vera sigurstranglegir á evrópumótinu en liðið tapaði ekki leik á mótinu og vann Ísland sannfærandi. 

 

Evrópumótið sjálft hefst á laugardaginn er Ísland mætir Frakklandi á Krít í Grikklandi. Ísland er einnig með Svartfjallalandi og Tyrklandi í riðli og því ljóst að spennandi verkefni er framundan fyrir Finn Frey Stefánsson þjálfara liðsins og liðið allt. Karfan.is mun fjalla ítarlega um mótið er það hefst næstkomandi laugardag. 

 

 

Mynd / Gríska körfuknattleikssambandið