Ben Simmons: "Iceland, Whoa"

Spilaði með og á móti Simmons

10.júl.2017  15:42 davideldur@karfan.is

Draumur margra ungra leikmanna rættist hjá Urði

 

 

Mörg síðustu ár hafa körfuboltakrakkar frá Íslandi farið í sumarbúðir NBA félagsins Philadelphia 76ers. Þetta árið var engin undantekning, þar sem að stelpur og strákar frá Keflavík, Grindavík, KR og Val sóttu æfingar ytra.

 

Það er venja í búðunum að einhver af leikmönnum liðsins komi og tali við börnin, en þetta árið kom fyrsti valréttur nýliðavals síðasta árs, ástralinn Ben Simmons. Bauð hann krökkunum í leik eftir fyrirlesturinn sem hann hélt og var Keflvíkingurinn Urður Unnardóttir valin af þjálfurum búðanna til þess að leika við kappann.

 

Simmons þarf ekki að kynna fyrir áhangendum NBA deildarinnar. Miklar vonir eru bundnar við að kappinn springi út í vetur, eftir að hafa eytt öllu fyrsta ári sínu í deildinni á meiðslalistanum. Við heyrðum í Urði og spurðum hana aðeins út í leikinn og búðirnar.

 

 

 

 

 

Hefur þú farið oft í þessar búðir?

"Þetta var í annað skiptið sem ég fer."

 

 

Hvaða félög voru með leikmenn þarna í ár?

"Það voru stelpur og strákar þarna frá Keflavík, Grindavík, KR og Val."

 

 

Lærðuð þið mikið þetta árið?

"Já, mikið var unnið í grunnatriðum, sem eru mjög mikilvæg. Virkileg gott að fara aftur yfir þau. Einnig var gott fyrir okkur íslensku leikmennina að læra öll ensku orðin sem notuð eru í körfubolta. Þá var mikið spilað og gaman að sjá hvað við (íslendingarnir) stöndum vel tæknilega miðað við aðrar þjóðir."

 

 

Hvernig æxlaðist það að þú fékkst leik við Ben Simmons?

"Á hverjum degi búðanna kemur einhver frá 76ers í heimsókn. Á síðast ári heimsótti hann aðeins strákahluta dagskráarinnar, en nú kom hann til okkar. Það voru allir kallaðir saman og hann hélt fyrirlestur, eða fór yfir nokkur atriði með okkur, þá svaraði hann einhverjum spurningum."

 

"Eftir fyrirlesturinn sagðist hann vanta einhverja leikmenn til þess að spila við og bað um sjálfboðaliða. Ég rétti upp hönd og þjálfararnir völdu mig."

 

"Honum þótti gaman að hitta alþjóðlega leikmenn. Þegar að ég kynnti mig fyrir honum og sagðist vera frá Íslandi svaraði hann bara “Iceland., whoa”

 

 

Hvernig var skipt í lið?

"Fyrsta leikinn var ég á móti honum, liðið hans vann, þó náðum við að skora eina körfu, ég skoraði hana. Síðan í næsta leik fékk ég að vera með honum í liði, þá vann liðið okkar."

 

Gat hann eitthvað?

"Já, hann sparaði ekkert. Frekar pirrandi fyrst, þar sem ég var að spila á móti honum. Í seinni leiknum þótti mér það alveg í lagi að hann væri svona góður."

 

Farin að hlakka til að fara á næsta ári?

"Já, ef ég fæ að fara."