Spútnikliðin leika um bronsið

Spánn og Frakkland bítast um gullið

25.jún.2017  15:35 nonni@karfan.is

Lokakeppnisdagur EuroBasket kvenna fer fram í dag þar sem Spánn og Frakkland munu leika til úrslita í Tékklandi. Þá mætast spútnikliðin Belgía og Grikkland í leik um bronsið.

Bronsleikurinn hefst kl. 16:00 að staðartíma í Tékklandi en þetta var í fyrsta sinn í sögunni sem Belgar og Grikkir náðu inn í undanúrslit lokakeppninnar. Þá hefst úrslitaleikur Spánar og Frakklands kl. 18 að staðartíma.


Frakkar eru á kunnuglegum slóðum en urðu að fella sig við silfrið 2015 og 2013 svo það er spurning hvort þeim takist að landa gullinu í sinni þriðju ferð í úrslitin í röð. Búist er við sögulegri bakvarðabaráttu í úrslitaleiknum í dag hjá þeim Celine Dumerc frá Frakklandi og hinni spænsku Laia Palau en báðar leggja þær landsliðsskónna á hilluna eftir mótið.


Mynd/ Franska liðið er á höttunum eftir gulli í dag.