Háskólaboltinn:

Jón Axel: Vil sýna hvað í mér býr þetta árið

24.jún.2017  12:22 davideldur@karfan.is

Markmiðið að vinna deildina á næsta tímabili

 

Grindvíkingurinn Jón Axel Guðmundsson söðlaði um frá uppeldisfélagi sínu vestur um haf í Davidson háskóla fyrir síðasta tímabil, en skólinn er með þeim betri sem að íslenskur leikmaður hefur nokkru sinni leikið fyrir í bandarísku 1. deild háskólaboltans. Strax á sínu fyrsta tímabili fékk hann tækifæri til þess að sýna hvað í honum býr og ekki sveik hann. Sem nýliði byrjaði Jón inni á vellinum í 29 af 31 leik fyrir skólann og spilaði yfir 30 mínútur að meðaltali í leik.

 

Við heyrðum aðeins í Jóni og spurðum hann út í þetta síðasta ár og framhaldið.

 

 

Fyrsta árið í háskólaboltanum að baki.

Voru þetta mikil viðbrigði fyrir þig? 

"Ekki eins mikil og ég bjóst við. En klárlega allir miklu sneggri og hoppa hærra hérna heldur en heima."

 

Hver er helsti munurinn á menningunni/körfuboltanum sem spilaður er þarna úti?

"Það er mismunandi eftir skólum bara. Minn skóli spilar hraðan og frekar svona evrópskan bolta meðan aðrir skólar setja meira upp í hverri sókn og þjálfarinn kallar kerfin. Þannig fyrir mig er þetta bara svona svipaður bolti eins og ég er vanur að spila."

 

 

Varla hægt að segja annað en að þú hafir komið vel inn í þetta Davidson lið.

Hversu ánægður ert þú með þetta fyrsta ár þitt?

"Ég er sáttur með hvernig hlutverk ég fékk meðan við að vera freshman og þjálfararnir voru sáttir með spilamennskuna mína, en persónulega fannst mér ég geta gert betur." 

 

Hvert sérðu þetta lið fara á næsta tímabili?

Hver eru markmiðin?

"Bara eins langt og við erum tilbúnir að leggja á okkur. Markmiðið er náttúrulega að vinna deildina okkar og svo koma með einhver læti inn í March Madness tournamentið."

 

 

Er mikil samkeppni að koma inn í hópinn?

"Erum að fá 4 góða freshmen sem munu koma með góða hæfileika inn í hópinn og það verður mikil samkeppni um mínútur sem gerir það bara að menn þurfi að leggja harðar að sér."

 

 

Verðmætasti leikmaður NBA deildarinnar, Stephen Curry, úr þessum sama skóla.

Er hann mikið að mæta á leiki?

Hvernig mann hefur hann að geyma?

"Hann kemur alltaf þegar hann spilar á móti Charlotte Hornets. Hann er topp eintak og eftir leikinn sem hann kom á í vetur þá var hann bara chillandi inn í klefa með okkur í 15 mínútur, bara að spjalla um lífið og tilveruna eins og hann væri bara einn af liðinu, en ekki einn verðmætasti leikmaður í heimi."

 

Þú varst hluti af U20 ár liðinu sem að tryggði sér sæti í A riðli nú í sumar.

Er sárt að fá ekki að keppa með þeim þar?

"Það er hrikalega svekkjandi að fá ekki að taka þátt í A-riðlinum eftir að hafa náð svona góðum árangri í fyrrasumar, en ég hef fulla trú á að Finnur, Fjallið (Baldur) og MR.Hvítur Bolur Gullkeðja (Bjartmar Birnir) muni gera liðið eins tilbúið og þeir geta. Þeir eru með fullt af flottum gaurum sem maður hefur spilað á móti upp alla yngri flokkana þannig maður veit þeir munu standa sig vel þarna úti."

 

 

Hitt liðið þitt, Grindavík, í úrslitum Íslandsmótsins hér heima nú í vor.

Kitlaði ekkert að fá að taka þátt í því?

"Það kitlaði hrikalega, en ég veit ekki hvort reglurnar leyfi það. Þannig það var ekki worth it að láta reyna á það." 

 

Hver eru persónuleg markmið þín fyrir næsta tímabil?

"Bara að bæta mig í öllum tölfræði hlutum sem hægt er að bæta sig í. Fannst ég geta gert betur í fyrra og vill sýna hvað í mér býr þetta árið."