Frá Furman til KR:

Kristófer Acox: Erfitt að hugsa sér að spila i öðru en röndóttu

21.jún.2017  07:01 Oli@karfan.is

Var í viðræðum við annað lið á Íslandi

Körfuknattleiksdeild KR tilkynnti í gær að Kristófer Acox hefði skrifað undir samning við liðið fyrir næsta tímabil. Landsliðsframherjinn sem lék með Furman háskólanum síðustu fjögur ár við góðan orðstýr hafði gefið það í skyn að hugurinn leitaði heim eftir veruna úti. Nú hefur hann staðfest að Ísland verði næstu áfangastaður næsta árið að minnsta kosti. 

 

Einhverjir hefðu búist við því að Kristófer færi beint í atvinnumennsku úr háskólanum en hvað liggur á bakvið ákvörðun hans? „Mig langaði að koma heim i eitt ár aður en ég myndi fara eitthvert út að spila þar sem eg er búinn að vera úti i heil fjögur ár og að auki úti i fimm af siðustu sjö árum.“ sagði Kristófer í samtali við karfan.is í gær eftir að KR hafði tilkynnt um undirskriftina. Hann bætti svo við: 

 

„Það var margt sem ýtti undir þessa ákvörðun en aðallega bara að komast heim að hlaða batteríin og nýta tækifærið á að spila sem atvinnumaður hérna heima. Einnig að stíga aðeins fyrir út fyrir þægindarammann og spila mína réttu stöðu eða þá sem ég mun spila i öðrum löndum.“

 

 

Kristófer er uppalinn hjá KR og lék síðast með liðinu í Dominos deild karla fyrir fjórum árum. Hann kom síðan aftur í úrslitakeppninni í apríl og hjálpaði KR að vinna fjórða íslandsmeistaratitilinn í röð. Hann segir það samt ekki hafa legið beinast við að semja við KR en að lokum hafi verið auðveld ákvörðun. 

 

„Ég vissi allan tímann að ég vildi koma heim i eitt ár en hvar það myndi verða var ég ekki alveg 100% á. KR kom auðvitað strax til greina þegar ég hugsaði um fyrir hvaða félag eg ætti að vera með. Ég var lika tilbuinn að vera opinn fyrir öðrum valmöguleikum og sjá hvað var i boði. Ég var i viðræðum við nokkur lið en eitt lið meira en önnur sem ég settist meðal annars niður með og ræddi malin. Að lokum var mjög eriftt að hugsa sér að spila i einhverju öðru en röndóttu þannig ég vissi þannig séð innst inni alltaf hvar ég myndi enda.“

 

Mynd/ Heimasíða Furman Paladins

 

Kristófer átti frábært lokatímabil fyrir Furman endaði með 13,0 stig og 7,7 fráköst að meðaltali í leik. Hann var valinn einu sinni leikmaður vikunnar í SoCon deildinni og á metið yfir leikmann sem hefur nýtt skotin sín utan af velli best í sögu skólans með 61,3 prósent. Sér Kristófer Dominos deildina sem gott stökk í sterkari deild í Evrópu? 

 

„Klárlega. Það er hugmyndafræðin að koma heim og taka eitt ár herna til að undirbua mig betur fyrir atvinnumennskuna, stærri og betri deildir. Ætla mér að nýta sumartimann og veturinn vel til þess að æfa fullt aukalega. Halda afram að vinna i minum veikleikum til að taka leikinn minn a næsta level og ég hef fulla trú a þvi að íslenska deildin muni hjálpa mer með það. Deildin er lika bara mun betri og skemmtilegri en þegar ég yfirgaf hana fyrir 4 árum þannig þetta verður mjög spennandi og krefjandi verkefni.“

 

Kristófer segir það stefnuna að staldra einungis við í þetta eina ár í Dominos deildinni. Samningur hans við KR hafi verið til eins árs og vonaðist hann til að það yrði stökkpallur í stærri deild. 

 

Mynd/ Bára Dröfn

 

Aðspurður um hvort það hafi engin áhugi verið frá liðum í evrópu eða stærri deildum í sumar sagði Kristófer að svo hefði verið en hann hafi ekki velt sér mikið uppúr því:

 

„Það var alveg einhver áhugi en ég réð mér ekki umboðsmann fyrr en seint i mai þannig að það var ekkert búið að koma mér útá markaðinn þannig séð. Hann er strax byrjaður að vinna i einhverju fyrir timabilið eftir þetta og síðan er auðvitað Eurobasket og Evropukeppnin hja KR þannig það verða vonandi góðir gluggar fyrir mig.“ 

 

Eins og áður kom fram er Kristófer að koma heim eftir fjögurra ára fjarveru heim til Íslands í umhverfi sem hann þekkir en hefur vaxið nokkuð á þessum árum. Hvernig er tilfinning Kristófers að koma heim og spila heilt tímabil á Íslandi?

 

„Tilfinningin er dásamleg. Þetta er i fyrsta sinn í fjögur ár þar sem ég kem heim og er heima allt sumarið. Bara það að vita að maður sé búinn með eitthvað sem maður byrjaði á fyrir löngu er lika góð tilfinning.“ sagði Kristófer og bætti við að lokum:

 

„Ég fékk auðvitað smá smjörþef af því núna i april i úrslitakeppninni en þetta verður allt öðruvísi. Ég er mjög spenntur fyrir komandi timabili og er enn spenntari að fá að taka þátt í því með mínu uppeldisfélagi og hvað þá að elta þann fimmta i röð!“  sagði Kristófer Acox að lokum en hann undirbýr sig nú undir Eurobasket sem fer fram í Helsinki í byrjun september. 

 

Mynd/ Bára Dröfn

 

VIðtal og texti: Ólafur Þór Jónsson