Æfingamót U20 á Íslandi

Mikilvægt að toppa á réttum tíma - Vörnin small í fjórða leikhluta

19.jún.2017  23:03 Oli@karfan.is

Svíþjóð leiddi í rúmar 39 mínútur

Ísland vann góðan sigur á Svíþjóð á æfingamóti U-20 sem fram fer í Reykjavík þessa dagana. Ísland var mest 17 stigum undir í fyrri hálfleik en kom til baka og vann frábæran sigur. 

 

Umfjöllun um helstu atriði leiksins má finna hér að neðan:

 

Gangur leiksins:

 

Svíþjóð byrjaði mun betur í leiknum og komst snemma í 11-1. Íslenska vörnin var of langt frá sínum mönnum og leikmenn ragir í sókninni. Kristinn Pálsson virtist vera sá eini sóknarlega sem var vakandi framan af fyrsta fjórðung hjá Íslandi. Fyrir utan sterka innkomu Breka Gylfasonar sem var ákveðinn og sterkur kom lítið annað út úr Íslenska liðinu sóknarlega. 

 

Eftir frekar jafnan fyrsta leikhluta setti Svíþjóð í lás og náðu 13-0 áhlaupi í byrjun annars leikhluta. Ísland setti ekki körfu fyrr en ríflega fimm mínútur voru liðnar af leikhlutanum. Staðan í hálfleik 35-23.

 

Ísland byrjaði seinni hálfleik vel og náði muninum minnst í fjögur stig. Finnar voru hinsvegar ansi heitir fyrir utan þriggja stiga línuna og fundu sér ítrekað opin skot. Þeim tókst þannig að koma muninum fljótt aftur í 12 stig. 

 

Svíþjóð fékk hreinlega of marga sénsa í sókninni. Tóku mun fleiri sóknarfráköst og náðu í stig að því er virtist ákveðninni einni saman. En það gekk ekki endalaust.

 

Varnarleikur Íslands tók á sig nýjan ham seinni hluta fjórða leikhluta og auðveldar körfur komu í framhaldi. Mögnuð troðsla Breka Gylfasonar þegar fjórar mínútur voru eftir kom muninum niður í tvö stig.

 

Kári kom Íslandi yfir í fyrsta skipti í leiknum þegar 45 sekúndur voru eftir af leiknum. Svíar hreinlega gátu ekki keypt sér körfu en þeir hittu einungis 3 skotum af 21 í fjórða leikhluta. Ingvi Þór Guðmundsson setti svo tvö víti í lokinn til að tryggja 58-61 sigur á Svíþjóð.

 

Hetjan:

 

Erfitt er að velja eina hetju úr leiknum í kvöld en Breki Gylfason átti frábæra innkomu. Hann var ákveðinn og sótti sterkt á körfu svía. Breki endaði með 13 stig. Kristinn Pálsson var bestur í Íslenska liðinu, endaði með 9 stig og 8 fráköst. Hann dreif liðið áfram og var sterkur á báðum endum. 

 

Kjarninn:

 

Frábær íslenskur sigur gegn sterku liði Svíþjóðar. Svíþjóð endaði í 10 sæti A-deildarinnar í fyrra og því gott fyrir Ísland að finna strax að þeir geta vel keppt við þessi lið. Það tók góðan tíma fyrir Ísland að finna taktinn gegn sterkri pressu svía og líkamlegum styrk. Þegar leikmenn fundu takt og svöruðu í sömu mynt virtust gæðin þá sérstaklega varnarlega bara meiri hjá Íslandi. Lykilleikmenn á borð við Kára Jónsson og Tryggvi áttu ekki sinn besta dag í dag og því nóg inni hjá Íslenska liðinu. 

 

Liðið mætir Ísrael á morgun kl 20:00 en Ísrael tapaði gegn Finnlandi fyrr í dag. Miðað við frammistöðuna og skemmtunina sem leikir dagsins voru er ljóst að væntingarnar eru háar fyrir leikjum morgundagsins. 

 

Tölfræði leiksins

Myndasafn leiksins (Bára Dröfn)

 

Viðtöl eftir leik: 

 

 

Umfjöllun og viðtöl / Ólafur Þór Jónsson

Myndir / Bára Dröfn