Tryggvi Snær:

Markmiðið að vera skrímsli

18.jún.2017  19:55 Skúli Sig (skuli@karfan.is)

Samningur til fjögurra ára

Tryggvi Snær Hlínason stefnir hraðbyri í að verða okkar næsti landsliðs miðherji. Ekki skortir efniviðinn í drenginn og flestir fengu að sjá sl. vetur hvaða hæfileika þessi stæðilegi Bárðdælingur býr yfir. Vissulega á kappinn margt eftir ólært í boltanum en Spánverjarnir í Valencia ætla að klára það dæmi fyrir okkur Íslendinga. Eins og skýrt var frá í morgun hefur kappinn gert samning við meistara ACB deildarinnar, Valencia.  Samningurinn er til fjögurra ára eða svo kallaður 2+2 samingur.

 

"Þetta koma að mestu til vegna Jón Arnórs (Stefánssonar). Hann talaði við þá Valencia menn og talaði upp áhuga þeirra á mér." sagði Tryggvi í samtali við Karfan.is nú rétt í þessu.  Jón Arnór var þar ekki að bera vatnið í barmafullan lækinn því hann þekkir þar vel til og auðveld handtök að rífa í tólið og heyra í stjórnarmönnum þar. 

 

"Ég hafði vissulega augun á háskólaboltanum í Bandaríkjunum en ég tel þetta vera rétta skrefið fyrir mig. Ég tel mig geta orðið betri körfuknattleiksmann í Evrópu. Auðvitað hefði það orðið lífreynsla að fara í háskólaboltann en það er betri bolti í Valencia og stórir menn græða meira á þessu." bætti Tryggvi við. 

 

Fyrstu árin fyrir unga leikmenn geta verið harðir í atvinnumannaheiminum og segist Tryggvi var tilbúin í það. "Ég geri ráð fyrir að vera fyrsta jafnvel annað árið að æfa með A liðinu en spila með B-liðinu.  Síðan færist ég upp í A-liðið þegar ég er tilbúin.  Mitt markmið á þessum fjórum árum er að verða skrímsli." sagði Tryggvi að lokum.