Ólafur Jónas tekur við kvennaliði ÍR

16.jún.2017  22:37 nonni@karfan.is

Ólafur Jónas Sigurðsson var í dag ráðinn nýr þjálfari kvennaliðs ÍR! Félagið hefur endurvakið starfsemi kvennaliðs félagsins sem eru gleðitíðindi og ráðið í starfann einn af dáðustu sonum ÍR í Ólafi.


Í frétt á Facebook-síðu ÍR segir:


Körfuknattleiksdeild ÍR hefur samið við Ólaf Jónas Sigurðsson um þjálfun meistaraflokks kvenna. Það eru mikil gleðitíðindi innan körfuknattleiksdeildarinnar að fá uppalinn ÍR-ing til þess að taka virkan þátt í uppbyggingu kvennakörfunnar hjá félaginu. Ólafur var einn af máttarstólpum ÍR liðsins í mörg ár og þekkir vel til í Hertz-hellinum, hann söðlaði um og spilaði með Stjörnunni í tvö tímabil en þaðan lá leið hans til Danmerkur þar sem hann bæði spilaði og þjálfaði í 7 ár. Síðustu ár hefur Óli starfað sem þjálfari hjá Bootchamp við góðan orðstír, þess má einnig geta að hann hefur sinnt styrkarþjálfun einstakra yngri flokka hjá ÍR. Fyrr í dag skrifaði varaformaður deildarinnar Steinar Þór undir samning við Ólaf.