Landsliðssumarið 2017:

Landsleikjum fjölgað um 83 á tíu árum

16.jún.2017  14:15 Oli@karfan.is

U20 liðið spilar á sterkum æfingamótum

KKÍ kallaði til blaðamannafundar nú í hádeginu þar sem landsliðsverkefni sumarsins voru kynnt með áherslu á U20 verkefnið en liðið er að fara í stórt verkefni í Grikklandi eftir mánuð. 

 

Árið 2017 er stærsta landsliðsár KKÍ frá upphafi en aldrei hafa fleiri lið leikið jafn marga landsleiki líkt og í ár á vegum Körfuknattleikssambandsins. Tíu landslið keppa á mismunandi mótum allt frá æfingamótum til Evrópumóta. Á árinu er áætlað að 114 landsleikir fari fram sem er langt mesti fjöldi síðan landsliðin hófu að leika. Til samanburðar voru leikirnir 31 árið 2007 og því hefur landsleikjum fjölgað um 83 á tíu árum. 

 

A-landslið kvenna mun leika æfingaleiki gegn Svíþjóð í ágúst en það verður undirbúningur fyrir undankeppni Eurobasket sem hefst í nóvember hjá liðinu. Dregið verður í riðla fyrir mótið þann 4. júli. Þá verður einnig dregið í FIBA Europe Cup sem KR mun taka þátt í. 

 

U20 liðið hefur leik í Krít í A-deild evrópumótsins þann 15. júlí gegn gríðarlega sterkum liðum. Í undirbúniningu fyrir það mót verður æfingamót á Ísland í næstu viku 19.-21. júní. Þá mæta Finnland, Ísrael og Svíþjóð til landsins og leika innbyrgðis. Að auki var liðinu boðið á æfingamót á Krít fyrir EM en þar mætast Ísland, Ítalía, Spánn og Grikkland á virkilega sterku móti. Landsliðshópur U20 var kynntur í vikunni og má finna hann hér. 

 

Finnur Freyr Stefánsson þjálfari U20 liðsins sagði það gríðarlega spennandi að fara á mótið. Hann sagði stærsta markmiðið vera að halda sér uppi í A-deild og að spila góðan körfubolta. 

 

U16 og U18 landsliðin eru á leið á Norðurlandamót þann 25. júní auk þess sem öll liðin leika á Evrópumóti um alla Evrópu. 

 

Þá er ónefnt A-landslið karla sem lýkur í raun sumrinu á Eurobasket í Helsinki. Liðið mun leika æfingaleiki gegn sterkum liðum á borð við Litháen, Ungverjaland, Þýskalandi, Rússlandi auk þess sem Belgar spila gegn Íslandi í Laugardalshöll 27. og 29. júlí. 

 

Hannes S. Jónsson formaður KKÍ sagði þennan árangur og fjölda leikja vera helst að þakka gríðarlegri vinnu starfsmanna KKÍ og nefndarmanna. Auk þess væri gríðarlegur fjöldi sjálfboðaliða sem stæði að baki. Hannes spjallaði við Karfan.is í hádeginu í dag og má finna það hér að neðan: