Íslandsmeistarar halda kjarnanum:

Sigurður á nóg eftir - Verður áfram í Vesturbænum

09.jún.2017  17:15 Oli@karfan.is

„Darrel Lewis er fjórum árum eldri en ég.“

Sigurður Þorvaldsson mun leika áfram hjá Íslands- og bikarmeisturum KR á næsta tímabili. Þetta staðfesti hann í samtali við Karfan.is í dag.

 

Sigurður kom til liðs við KR fyrir síðasta tímabil eftir að hafa leikið með Snæfell í fjölmörg ár. Hann er 36 ára gamall og því veltu eflaust einhverjir fyrir sér hvort hann myndi enda ferilinn með titli í ár. Svo er ekki og hefur Sigurður ákveðið að halda áfram að leika með liðinu og gera atlögu að fimmta íslandsmeistaratitlinum í röð hjá félaginu. 

 

Þegar Sigurður var spurður um hvort hann ætti nóg eftir af ferlinum stóð ekki á svörum: „Þú sérð að Darrel Lewis er 4 árum eldri en ég þannig já ég á nóg eftir."

 

Hann var með 9,3 stig og 5 fráköst að meðaltali í leik og reyndist liðinu gríðarlega mikilvægur á stórum augnablikum á síðasta tímabili. Sigurður á einnig að baki 57 landsleiki og því gríðarleg reynsla sem KR heldur innan sinna raða.

 

KR eru því að ná að halda sama kjarna og lyfti fjórða íslandsmeistaratitlinum í röð fyrir stuttu. Brynjar Þór Björnsson tilkynnti í morgun að hann yrði áfram hjá félaginu en ljóst er að Þórir Guðmundur Þorbjarnarson er að horfa til Bandaríkjanna í háskólaboltann en hefur ekki enn samið við skóla.