Spænski boltinn

Ægir einum leik frá spænsku úrvalsdeildinni

04.jún.2017  18:48 Oli@karfan.is

San Pablo Miraflores Burgos er komið með aðra hendina í Spænsku ACB-deildina eftir frábæran átta stiga sigur á Palenica í dag. Leikurinn var númer tvö í einvígi liðanna um laust sæti í efstu deild á Spáni að ári. 

 

Nágrannalið Burgos í Palencia byrjuðu betur og voru heilt yfir betri í fyrri hálfleik. Góð áhlaup Burgos í seinni hálfleik kom þeim hinsvegar yfir fyrir lokasprettinn. Leikmenn Burgos voru hreinlega skynsamari og kaldari á lokamínútunum og unnu að lokum 90-82 sigur. Burgos hefur þar með unnið tvo leiki og þurfa einn sigur í viðbót til að tryggja sætið í efstu deild að ári. 

 

Ægir Þór var mjög öflugur fyrir Burgos í dag. Hann endaði með 4 stig, 6 fráköst og 6 stoðsendingar auk þess að stjórna varnarleik liðsins og hitta úr öllum skotum sínum. Huskic var maður leiksins með 22 stig og 15 fráköst og þar af gríðarlega stórar körfur í lok leiks. 

 

Næsti leikur liðanna fer fram á föstudaginn á heimavelli Palencia. Með sigri tryggja Ægir og félagar sæti í  einni sterkustu deild evrópu.