Borgnesingar semja við þjálfara

Fyrrum landsliðsþjálfari Norður Kóreu tekur við Skallagrím

03.jún.2017  13:19 Oli@karfan.is

Skallagrímur hefur samið við aðalþjálfara meistaraflokks kvenna fyrir komandi átök í Dominos deild kvenna. Ricardo Gonzalez Dávila (Richi Gonzalez) hefur verið ráðinn þjálfari liðsins en hann tekur við af Manuel Rodriquez sem var látinn fara eftir að hafa þjálfað liðið í tvö ár.  

 

Richi 45 ára Spánverji sem hefur komið víða við á löngum þjálfaraferli sínum. Hann þjálfaði landslið Chile og Norður Kóreu auk þess að vera sigursæll þjálfari í Chile, Bólivíu og Spáni. Eiginkona hans hefur einnig verið ráðin til Skallagríms en hún heitir Lidia Mirchandani og er 39 ára. Lidia er fyrrum leikstjórnandi spænska landsliðsins og á að baki sigursælan atvinnumannaferil þar sem hún vann meðal annars Euroleague með Spartak Moscow. Bæði munu þau koma að þjálfum yngri flokka einnig. 

 

Skallagrímur lék sitt fyrsta tímabil í efstu deild kvenna á síðasta tímabili og náði liðið í bikarúrslitaleikinn og undanúrslit í Dominos deildinni. Í báðum tilvikum féll liðið úr leik gegn Íslands-og bikarmeisturum Keflavíkur. Stjórn Skallagríms vildi fá inn nýtt blóð eftir síðasta tímabil og hefur nú ráðið inn Ricardo. Hann og kona hans munu flytja í Borgarnes á haustmánuðum ásamt tveimur börnum.

 
 
Í tilkynningu Skallagríms segir einnig: 

 

Richi hefur komið víða við á löngum þjálfaraferli. Hann er menntaður þjálfari og hefur meira og minna starfað við þjálfun frá árinu 1992. Fyrstu árin þjálfaði hann yngri flokka í Madríd á Spáni en hefur síðan þjálfað kvenna- og/eða karlalið m.a. í efstu deildum á Spáni, Bólivíu og Chile. Richi var um tíma landsliðsþjálfari kvenna hjá Norður-Kóreu og stýrði kvennalandsliði Chilé í 3 ár auk þess að stýra U16 og U18 ára kvennalandsliðum Chilé á sama tíma. Á þessum árum náði Chilé sínum besta árangri frá upphafi og má þar nefna að aðalliðið landaði 4 verðlaunum á 3 árum. Samhliða aðalþjálfarastöðum þá hefur hann tekið þátt í mörgum tugum æfingabúða og í seinni tíð hefur hann persónulega verið með einstaklingsæfingar á Spáni fyrir atvinnuleikmenn (m.a. WNBA leikmenn) frá Suður Ameríku. 

 

Lidia, eiginkona Richi, mun koma með honum til Íslands og aðstoðar við þjálfun liðsins og kemur að þjálfun yngri flokka. Hún hefur verið atvinnumaður víða um Evrópu og lék stöðu leikstjórnanda. Hún var leikstjórnandi spænska landsliðsins, hefur spilað 68 landsleiki og tekið þátt bæði í Evrópu- og Heimsmeistaramótum. Þegar hún var upp á sitt besta þá vann hún m.a. landstitla á Ítalíu, Sviss, Spáni, Chilé og Rússlandi en þar spilaði hún með Spartak Moscow sem hampaði sigri í Evrópukeppni með hennar aðstoð. Hún hefur fengið nokkra MVP titla í löndum þar sem hún hefur leikið. Hún hefur einnig talsverða reynslu af yngri flokka þjálfun en undanfarið ár hefur hún ásamt því að þjálfa og spila lítillega á Spáni starfað hjá samtökum sem aðstoða spænskar körfuknattleikskonur að komast á háskólasamninga í Bandaríkjunum. 

 

Richi og Lidia hefja störf fyrir Skallagrím snemma í haust og mun reynsla þeirra án efa nýtast Skallagrím vel í baráttunni í vetur og við bjóðum þau velkomin í Borgarnes.