Martin Hermannsson:

Tek vonandi stórt skref upp á við á mínum feril á næsta tímabili

01.jún.2017  16:06 davideldur@karfan.is

Annar besti leikmaður frönsku fyrstu deildarinnar á sínu fyrsta tímabili

 

Martin Hermannsson, körfuknattleiksmaður ársins á Íslandi árið 2016 og leikmaður Etoile Charleville-Mezieres í frönsku fyrstu deildinni var á dögunum að klára sitt fyrsta tímabil í tvinnumennsku. Körfuknattleiksáhugamenn á Íslandi líklega fylgt fréttum af flottu tímabili hans grannt, þar sem að lið hans gerði mun betur en spáð var fyrir um í byrjun, sem og var Martin sjálfur annar í kjöri um leikmann deildarinnar. Við tókum stöðu á Martin eftir að tímabilinu lauk.

 

 

Sagði hann þetta fyrsta ár sitt í atvinnumennskunni hafa verið mikil viðbrigði frá árinu áður, þar sem að hann spilaði með háskólaliði LIU Brooklyn í bandarísku fyrstu deildinni og að þessi heimur væri mun harðari. Hann hefði þó þroskast mikið bæði sem einstaklingur og leikmaður á þessu fyrsta ári sínu í mennskunni.

 

Varðandi tímabilið sagðist Martin einnig frekar sáttur. 

 

“Bæði það sem liðið afrekaði og ég persónulega. Okkur var spáð 16. sæti fyrir tímabilið en endum í 5. sæti eftir að hafa verið í topp 3 í nánast allan vetur. Það var vissulega svekkjandi að hafa ekki getað beitt mér 100% í úrslitakeppninni, því ég er viss um að við hefðum getað farið miklu lengra” 

 

 

Enn frekar sagði hann að þetta hafi verið rétti tíminn til þess að fara út í atvinnumennsku og að hann sjái ekki eftir neinu, en þegar að hann ákvað að fara úr skólanum átti hann enn eftir ár þar.

 

Varðandi framtíðina sagði hann það ekkert leyndarmál að sig langaði að fara í eitthvað nýtt og stærra.

 

“Framtíðin er bara björt. Ég tek vonandi stórt skref upp á við á mínum feril á næsta tímabili”  

 

Martin meiddist á öxl tveimur vikum fyrir úrslitakeppnina, en sagðist hann þó allur vera að koma til og að þetta væri ekki eitthvð sem að aðdáendur íslenska A landsliðsins ættu að hafa áhyggjur af, en liðið mun leika á lokamóti EuroBasket í byrjun september.