Valur styrkir grunnstoðirnar

Pálmar Ragnarsson í raðir Vals

01.jún.2017  07:07 Oli@karfan.is

Pálmar Ragnarsson hefur samið við Val um að þjálfa hjá félaginu næstu þrjú árin og koma að uppbyggingu körfuboltans hjá félaginu. Pálmar hefur hlotið gríðarlega athygli fyrir aðferðir sína og hugafar við þjálfun yngri flokka síðustu misseri en hann hefur þjálfað hjá KR í nokkur ár. 

 

Frá þessi segir á heimasíðu Vals en Pálmari er ætlað að þjálfa yngstu iðkenndur félagsins og koma að uppbyggingu körfuknattleiks hjá Val. Hann hefur þjálfað yngri flokka í 12 ár og haldið fyrirlestra um aðgerðir sínar í samskiptum við börn og unglinga í þjálfun og var áberandi í "Sýnum karakter" átaksins sem ÍSÍ og UMFÍ stóð fyrir. 

 

Á heimasíðu Vals stendur: „Það er okkur Valsmönnum mikið fagnaðarefni að fá Pálmar til okkar. Hann hefur unnið frábært starf fyrir körfuknattleik á Íslandi og er einstök fyrirmynd fyrir yngri iðkendur.  Nálgun hans við þjálfun barna og fagmennska við iðkendur jafnt sem foreldra er fyrsta flokks og á sér fáa líka. Nálgunin er ennfremur í fullu samræmi við gildi og hugsjónir félagsins.“ 

 

Pálmar segist hlakka til að mæta á Hlíðarenda og kynnast fólkinu í Val, bæði börnum og foreldrum: „Ég elska að þjálfa körfubolta, það er það skemmtilegasta sem ég geri. Þess vegna er ég gríðarlega spenntur fyrir því að takast á við nýja áskorun á nýjum stað. Markmið mitt er að það verði virkilega gaman fyrir börn að æfa körfubolta í Val og að allir njóti sín á æfingum óháð getu. Valur er frábært félag með mikla sögu og það er tær snilld að fá að taka þátt í þeirri uppbyggingu sem mun eiga sér stað á næstu árum.“

 

Það vakti gríðarlega athygli fyrr í vetur þegar Pálmar gaf út myndband þar sem hann ýtti undir og minnti  þá stráka á sem hann þjálfar að stúlkurnar í íþróttinni séu alls ekki síðri né ómerkilegri en strákarnir.