Brynjar Þór Björnsson:

Ég er samningslaus og því allt opið

01.jún.2017  08:45 Skúli Sig (skuli@karfan.is)

Fjórfaldur meistari og fyrirliði KR íhugar vistaskipti

 

Fyrirliði Íslandsmeistara KR til síðustu fjögurra ára, Brynjar Þór Björnsson segir í samtali við Karfan.is að hann sé að íhuga sín mál varðandi næsta tímabil og hvar hann muni spila. Það er því ekki gefið að þessi gallharði KR-ingur komi til með að spila í vesturbænum á komandi tímabili. "Já ég er samningslaus svo það er allt opið hjá mér. Þettta snýst allt um að finna hvatningu í öllu því sem ég tek mér fyrir hendur. Það er hægt að finna þær hvar sem er en auðvitað er erfitt að finna jafn mikla áskorun og að vinna titilinn fimmta árið í röð. Sú áskorun kemur að ég held bara einu sinni á ferlinum. Svo þetta eru stór ákvörðun sem ég verð að taka." sagði Brynjar Þór í samtali. 

 

Sem fyrr þá hefur Brynjar leikið allan sinn feril hjá KR hérlendis en kappinn skrapp til Svíþjóðar eitt tímabil og lék þar með árið 2011 með liði Jamtland.  Brynjar sem ekki komst í EM hópinn fyrir tveimur árum segir vissulega sé hugur hans á landsliðssæti fyrir komandi EM.  "Hugur minn er á mörgum stöðum þessa dagana og er landsliðið þar mjög ofarlega. Undirbúningur fyrir það er hafinn hjá Ingimundi þjálfara.  Svo er fyrirtækjarekstur þarna líka en ég og mágur minn erum að stofna Ferðaþjónustu fyrirtæki." sagði Brynjar. 

 

Brynjar lék 32 leiki fyrir KR á síðasta tímabili og skoraði í þeim 16 stig á leik, tók rúmlega 3 fráköst og sendi 3 stoðsendingar að meðaltali.  Sögusagnir þess hafa verið háværar að Þór Akureyri séu í viðræðum við kappann en það fékkst ekki staðfest.  Óhætt er hinsvegar að segja að það yrði fengur fyrir þá Þórsara að krækja í þennan margfalda meistara.