Ferðast til Parísar í dag vegna flugs sem fellt var niður

British Airways ljón í vegi landsliðanna

29.maí.2017  10:04 nonni@karfan.is

Íslensku karla- og kvennalandsliðin í körfubolta ættu með réttu að vera komin á Smáþjóðaleikana í San Marínó en reyndin er allt önnur. Liðin ásamt sundhópi Íslands eru nú stödd í rútu á leið til Dover þar sem ferja mun flytja hópinn yfir til Frakklands. Þetta þýðir að íslensku liðin lenda ekki á keppnisstað fyrr en á leikdegi og undirbúningi þeirra því verulega raskað fyrir átökin framundan.


Í gær var flug British Airways fellt niður og engar leiðir í boði áfram með lest eða flugi eins og segir í færslu á Facebook-síðu KKÍ. Hópurinn gisti á hóteli í London og í kvöld verður farið áfram til San Marínó með flugi frá París.


Þrátt fyrir brambolt á ferðalaginu segir í færslu KKÍ að hópurinn sé einstaklega jákvæður í öllum þessum skakkaföllum en eins og maðurinn sagði: „Enginn verður óbarinn biskup.“


Kristinn Geir Pálsson íþróttastjóri KKÍ er á meðal þeirra sem fara fyrir íslensku körfuboltalandsliðunum á Smáþjóðaleikunum en hann sagði í snörpu samtali við Karfan.is að hópurinn væri samstilltur og jákvæður og að sundið og karfan hefðu unnið vel saman til að leysa úr málunum.


Keppnisdagskrá Íslands á Smáþjóðaleikunum


Þátttökuþjóðir karla:
Andorra, Ísland, Kýpur, Lúxemborg, San Marínó og Svartfjalland.


Dagskrá:
30. maí · 15:00 (13:00 heima) Ísland-Kýpur
31. maí · 20:00 (18:00 heima) San Marínó-Ísland
1. júní · 15:00    (13:00 heima) Andorra-Ísland
2. júní · 17:30 (15:30 heima) Lúxemborg-Ísland
3. júní · 15:00 (13:00 heima) Ísland-SvartfjallalandÞátttökuþjóðir kvenna:
Ísland, Kýpur, Malta, Lúxemborg.


Dagskráin:
30. maí · 17:30 (15:30 heima) Ísland-Lúxemborg
31. maí · 15:00 (13:00 heima) Malta-Ísland
1. júní · 17:30 (15:30 heima) Kýpur-Ísland


Mynd/ KKÍ.is - Þolinmæðin drýpur hér af Ólafi Ólafssyni leikmanni Grindavíkur og þjálfurunum Baldri Þór Ragnarssyni og Finni Frey Stefánssyni.