Sweet 16 hefst í kvöld

Mars brjálæðið heldur áfram - Leiðir Lonzo Ball UCLA til sigurs?

23.mar.2017  07:07 Oli@karfan.is

18 bracket af 18 milljónum enn fullkomin

Mars brjálæðið hófst síðustu helgi þar sem 64 lið hófu keppni í úrslitum háskólaboltans í Bandaríkjunum. Fyrir marga er þetta hápunktur íþróttalífs í landinu og gríðarleg stemmning í kringum mótið. 

 

Óhætt er að segja að óvænt úrslit hafi litið dagsins ljós í fyrstu tveimur umferðum keppninnar, féllu mörg stór lið úr keppni og undirhundar hafa komið á óvart. 

 

Meistarar síðasta árs í Villanova Wildcats féllu úr leik gegn Wisconsin í 32 liða úrslitum en margir höfðu spáð Villanova góðu gengi aftur á þessu tímabili. Duke sem Coach K þjálfar féll einnig úr leik gegn Suður Karólínu skólanum en Duke hefur alltaf úr góðum leikmönnum að moða. Liðið er skipað nokkrum leikmönnum sem eiga að vera ofarlega í nýliðavali NBA á næstu árum og því mikil vonbrigði að liðið komist ekki lengra í ár. 

 

Michigan háskólinn kom einnig á óvart og sló út Louisville sem var í öðru sæti í seinni deild. Í ár er einmitt 25 ár frá Fab Five árgansins hjá Michigan sem innihélt leikmenn á borð við Chris Webber og Jalen Rose. Liðið komst í úrslitaleikinn tvö ár í röð en gerðar hafa verið heimildarmyndir um liðið sem á að hafa breytt menningunni í háskólaboltanum síðan. 

 

Mikils er til ætlast af Lonzo Ball sem er líklegur til að enda í efstu tveimur valréttunum í nýliðavali NBA deildarinnar í sumar. Hann leikur fyrir UCLA sem hefur ekki komist í úrslitaleikinn frá 2006 og ekki lyft titlinum í 22. ár. Stuðningsmenn leggja því miklar væntingar á herðar Ball að klára þetta verkefni áður en hann yfirgefur liðið í sumar. 

 

Sweet 16 fer af stað í kvöld og verður leikið í 16 liða úrslitum og 8 liða úrslitum um helgina. Eins og oft hafa áhugamenn leikið sér að því spá fyrir um allt mótið og búa til svokölluð "bracket". ESPN síðan er með sérstakan leik þar sem menn geta keppt sín á milli og safnað stigum. Átjan milljónir tóku þátt á síðunni og eru eingöngu 18 einstaklingar sem eru með fullkomlega rétt "bracket" eftir fyrstu umferðirnar. 

 

Sweet 16 dags- og tímasetningar (Íslenskur tími): 

 

23. Mars: 

Michigan (7) - Oregon (3) kl 23:00

West Virginia (4) - Gonzaga (1) kl 23:30

Purdue (4) - Kansas (1) kl 1:30

Xavier (11) - Arizona (2) kl 2:00

 

24. mars:

Butler (4) - North Carolina (1) kl 11:00

South Carolina (7) - Baylor (3) kl 11:30

UCLA (3) - Kentucky (2) kl 1:30

Wisconsin (8) - Florida (4) kl 2:00