Umfjöllun um leik Keflavíkur og Tindstóls

Sauðkrækingar tómhentir heim frá Keflavík

19.mar.2017  22:22 Oli@karfan.is

Gerði leikplan Martins gæfumuninn?

Keflavík tók 2-0 forystu í einvíginu gegn Tindastól í átta liða úrslitum Dominos deildar karla eftir góðan sigur á heimavelli. Keflavík stakk af í öðrum leikhluta og þrátt fyrir að Tindastóll næði að minnka muninn reyndist of erfitt að elta allan leikinn að lokum. 

 

Umfjöllun um helstu þætti leiksins má finna hér að neðan:

 

 

Gangur leiksins:

Fyrsti leikhluti var hnífjafn og skiptust lðin hreinlega á körfum og stoppum. Anthonio Hester og Amin Stevens voru aðalmennirnir í sínum liðum og röðuðu niður körfum. Hester var með fyrstu átta stig Tindastóls en Keflavík hélt þeim alltaf nálægt sér. Í öðrum leikhluta fór Israel Martin að leyfa öllum leikmönnum liðsins að spila og opin skot hættu að detta og jafnvægið í liðinu fór algjörlega. 

 

Keflavík náði mest 15 stiga forystu í öðrum leikhluta og hola Tindastóls orðin ansi djúp. Staðan eftir fyrri hálfleik var 45-38 eftir góðan endi Tindastóls. Skotnýting Tindastóls fyrir utan þriggja stiga línuna var sérlega döpur og má þakka frábærum varnarleik Keflavíkur um að miklu leiti.

 

Keflavík hélt áfram forystunni í þriðja leikhluta er Tindastóll gekk ekkert að stöðva Amin Stevens í sókninni þrátt fyrir að reyna öll tiltæk ráð. Vörn Tindastóls hertist nokkuð en ekki nægilega þar sem lítið gekk að saxa á forystu Keflavíkur og komast yfir. Minnsti munurinn var eitt stig þegar lítið var eftir af þriðja leikhluta. 

 

Fjórði leikhluti hótaði því nokkrum sinnum að verða háspennuleikur. Þrátt fyrir það var ákveðið ráðaleysi sem greip sóknarleik Tindastóls sem kom í veg fyrir að þeir næði almennilegu áhlaupi til að hleypa leiknum upp. Guðmundur Jónsson átti risa þriggja stiga skot þegar mínúta var eftir sem fór ansi langt með leikinn. Sauðkrækingar fóru þá að reyna örvæntingarfull skot í stað þess að sýna yfirvegun og skynsemi. 

 

Keflavík hafði að lokum 86-80 sigur og tók þar með 2-0 forystu í einvíginu. Liðin mætast aftur á fimmtudaginn og getur Keflavík komist í undanúrslit með sigri. 

 

Hetjan:

Tindastóll reyndi allt til að stöðva Amin Stevens. Óhætt er að segja að ekkert af þessum leiðum gengu í dag. Stevens endaði með 35 stig, 16 fráköst og 47 framlagsstig í leiknum. Hann lék sér að vörn Tindastóls allan leikinn og það var alveg sama þó þreytan væri farin að segja til sín í lokin. Hörður Axel var traustur að vanda auk þess sem Guðmundur Jónsson var frábær á ögurstundu með risa stig og öflugan varnarleik. 

 

Anthonio Hester var með 26 stig og 11 fráköst í leiknum en sóknarflæði Tindastóls stoppaði full oft á honum. Aðrir lykilleikmenn liðsins fundu sig ekki almennilega en vert er að nefna innkomu Friðriks Stefánssonar sem endaði með 9 stig og 75% skotnýtingu. 

 

Kjarninn:

Israel Martin mætti til Keflavíkur í dag með ævintýralega furðulegt leikplan. Allir leikmenn liðsins léku í þessum leik og menn sem hafa leikið mjög lítið fengu stórar mínútur. Þetta varð til þess að jafnvægi liðsins var skrýtið og leikmenn sem hafa lítið skotið í vetur fengu stór skot sem rötuðu ekki ofaní. En hvað veldur? Ætlaði Martin að hvíla og vera með lykilmenn ferska í lokin gegn þreyttum Keflvíkingum? Leikmenn sem komu inná í lokin eftir að hafa setið á bekknum komu inná ekki í neinum takt við leikinn. Þá virtust svörin við varnarleik Keflavíkur hafa verið mjög fá og sóknarleikur Tindastóls heilt yfir seigur og þvingaður. 

 

Tindastólsmenn gera mikið úr því að vera varnarlið en liðinu virðist vera fyrirmunað að spila þennan varnarleik á löngum köflum. Menn virðast gleyma hlutverkum sínum og gera ekki það sem lagt er fyrir. Ofan á þetta fór ógurlega mikil orka liðsins í að pirra sig á dómum og þá var alveg sama hversu augljós dómurinn var. Þetta er mjög orkufrekt einvígi fyrir og ætli sauðkrækingar sér að eyða aukaorku sinni í að pirra sig endalaust á dómurum geta þeir alveg eins pakkað saman og hætt. 

 

 

Að öllu þessu sögðu þá er staðreyndin sú að munurinn á liðunum er ekki meiri en tvöföld framlenging í síðasta leik og sex stiga tap í kvöld. Munurinn á liðunum er ekki það mikill og skildi enginn fara að afskrifa Tindastól. Liðið er frábærlega skipað og hefur sýnt styrk sinn í vetur, þeir þurfa þó að skilja aðeins meira eftir á gólfinu og þá er allt hægt. 

 

Keflavík virðist vera að toppa á réttum tíma og Friðrik Ingi að ná mikilu úr sínum mönnum. Liðið lítur frábærlega út á báðum endum vallarins og yfir-hæp kvöldsins segir manni að Keflavík geti jafnvel komist alla leið. Það skal samt sem áður ekki gleymast að liðið var í sömu stöðu fyrir tveimur árum er það leiddi 2-0 einvígi gegn Haukum. Haukar komu þá til baka og unnu 3-2, það getur því allt gerst á næstunni en ljóst að Keflavík er með sópinn í höndunum og mun gera allt til að klára einvígið í næsta leik á Sauðárkróki. 

 

Tölfræði leiksins

Myndasafn

 

Umfjöllun / Ólafur Þór Jónsson

Myndir / Skúli B. Sigurðsson