Reiknideild Karfan.is:

Njarðvík þarf að treysta á nágranna sína

09.mar.2017  11:33 Oli@karfan.is

Dramatískt kvöld í vændum

Lokaumferð Dominos deildar karla fer fram í kvöld. Enn er spenna á mörgum vígstöðum og þá helst um miðja deild þar sem lið geta endað í allt frá fimmta til níunda sætis.

 

Það er ekki fyrir hvern sem er að reikna út mögulegar útkomur deildarinnar. Það er í raun svo flókið að blaðamaður þurfti að kalla til sérlegan reiknisérfræðing sér til aðstoðar. Þetta eru mögulegar útkomur frá fjórða til níunda sæti:

 

Grindavík situr í fjórða sæti með 24 stig, tveimur stigum meira en Keflavík. Það er því í þeirra höndum að vinna sinn leik gegn Skallagrím, geri þeir það er fjórða sætið þeirra. Grindavík tapar hinsvegar innbyrgðisviðureignunum gegn bæði Keflavík og Þór Þ sem eru einu liðin sem geta náð þeim að stigum. Grindavík getur samt sem áður ekki fallið neðar en fimmta sæti.

 

Sú staða getur komið upp að fimm lið verði jöfn að stigum í 5.-9. sæti. Þá eru innbyrgiðsleikir þessara liða teknir saman og búin til nokkurskonar minni deild með þeim úrslitum. Sú niðurstaða ræður röðun á deildinni. Niðurstaðan í þessari fimm liða deild væri þessi:

 

Fimm liða deild. Röðun, stig og stigamunur.

Keflavík - 10 stig (+58)

ÍR - 10 stig (+3)

Þór Þ - 8 stig (+13)

Þór Ak - 8 stig (-14)

Njarðvík - 4 stig

 

Mynd / Skúli B. Sigurðsson

 

Gert er ráð fyrir í útreikningum að Þór Ak vinni Snæfell á Akureyri en tapi Þór verða þeir að treysta á að Njarðvík tapi þar sem liðið er yfir í innbyrgðisviðureigninni gegn þeim. Þeir tapa hinsvegar innbyrgðis á ÍR. Keflavík er með innbyrgðissigur á ÍR fyrir leikinn og þarf ÍR að vinna með 20 stigum eða meira þar sem Keflavík vann fyrri viðureign liðanna með 19 stigum. Hér að neðan eru tvö dæmi um mögulegar niðurstöður. 

 

Vinni Þór Ak, Njarðvík og ÍR með 20 stigum verður staðan svona: 

5. ÍR

6. Þór Þ

7. Keflavík

8. Þór Ak

9. Njarðvík

 

Vinni Þór Ak og Njarðvík en ÍR tapar verður staðan svona:

5. Keflavík

6. Þór Ak

7. Þór Þ

8. Njarðvík

9. ÍR 

 

Mynd / Bára Dröfn

 

Fleiri möguleikar geta auðvitað komið upp en þetta reiknidæmi ætti að geta skýrt möguleikana aðeins. Einhverjir klóra sér sjálfsagt enn í hausnum yfir þessu sem er hið eðlilegasta mál. Ljóst er að reiknisérfræðingar verða uppi með vasareiknanna er umferðin fer fram. Spennan verður allavega allsráðandi en hægt er að sjá fimm af sex leikjum umferðarinnar í beinni útsendingu hvort sem er á Stöð 2 sport eða útsendingum félaganna.