Kári Jónsson um lífið hjá Drexel

„Framtíð Drexel er íslensk“

07.mar.2017  06:30 Oli@karfan.is

Kári: Fengið öðruvisi sjónarhorn á marga þætti körfuboltans

Hafnfirðingurinn Kári Jónsson hefur lokið sínu fyrsta tímabili í háskólaboltanum eftir að lið hans Drexel drekarnir féllu úr leik gegn JMU í átta liða úrslitum í úrslitakeppni síns fylkis.

 

Kári lék þann leik eftir tveggja vikna fjarveru vegna meiðsla. Hann tognaði á liðbandi í hnéi og var frá í smá tíma undir lok tímabils. Íslendingurinn sem Drexel hluti Philadelphiu borgar elskar kom sterkur inn í loka leikinn og setti 14 stig. Það dugði ekki til í hinum harða heimi háskólaboltans, einn leikur skiptir sköpum og kláraðist tímabil þeirra með þessu tapi. 

 

Kári getur gengið stoltur frá borði en hann lék 21 leik í byrjunarliði af 28 leikjum liðsins þar sem hann var með. Kári er með 10,1 stig, 2,3 fráköst og 43% þriggja stiga nýtingu að meðaltali í leik. Ef horft er á twitter síðu liðsins er Kári mikils metinn hjá þeim. Eftir síðasta leik tímabilsins tísti liðið að framtíð liðsins væri íslensk. 

 

Þar að auki reyndu leikmenn liðsins við nafn Hafnarfjarðar í kostulegu myndbandi þar sem árangurinn er vægast sagt skrautlegur:

 

 

Twitter aðgangurinn hefur einnig reynt að tísta á íslensku, líklega með hjálp google translate og er árangurinn þar einnig áhugaverður svo ekki sé fastar að orði kveðið. 

 

 

Umfram allt hefur Kári staðið sig frábærlega á körfuboltavellinum í vetur. Hann hefur fengið að skjóta ansi mikið og er með 43% skotnýtingu fyrir utan þriggja stiga línuna í 150 skotum á tímabilinu. Mest setti hann sex þrista í leik og má sjá myndband af því hér að neðan:

 

 

Karfan.is náði tali af Kára á dögunum og fékk púlsinn á lífinu í Philadelphia. Kári er líkt og gefur að skilja upptekin og viðurkenndi hann að fátt annað kæmist að en körfubolti og skólinn þessa dagana. Hann var hinsvegar meira en til í að svara laufléttum spurningum þar sem hann segist hafa þroskast mikið á þessu eina ári og sé strax farinn að hlakka til næsta tímabils. 

 

„Lífið hérna úti er bara mjög fínt, tók smá tíma að aðlagast og svona. Það kemst ekkert mikið í dagskrána fyrir utan skóla og körfu en auðvitað reynir maður að gera alltaf einhvað með liðsfélögunum annað slagið.“ sagði Kári og bæti við um hlutverk sitt í liðinu. 

 

„Mitt hlutverk er buið að breytast aðeins frá tímabilinu með Haukum i fyrra. Hérna er ég meira i skotbakvarðarstöðunni og kannski ekki jafn mikið að með boltann eins og i fyrra. Það spilar stóran part í þvi að vera nýliði, hlutverki mitt ætti bara að stækka héðan í frá.“ 

 

„Mér hefur gengið nokkuð vel bara, búinn að vera skjóta boltanum vel hérna og það gerir allt annað auðveldara. Ég hef bætt mig í heilmörgu og fengið öðruvisi sjónarhorn á marga þætti körfuboltans.“ sagði að Kári.

 

Líkt og áður sagði hefur gengið heilt yfir vel hjá Kára en liðið sjálft vann einungis níu leiki á tímabilinu. Þjálfari liðsins er Zach Spiker sem þjálfaði Army háskólann síðustu ár. Þar hóf einmitt Mike Krzyzewski (Coach K) þjálfaraferil sinn og deilir hann félagsmeti í flestum sigri með einmitt þjálfara Kára sem tók við liðinu fyrir tímabilið. En hvernig lýst Kára á framhaldið eftir að hafa fallið úr leik fyrir stuttu. 

 

„Við erum bara spenntir fyrir framhaldinu, þetta var fyrsta árið með nýjum þjalfara og fullt af ungum leikmönnum. Þannig framtíðin er björt hjá okkur og vonandi náum við að bæta okkur frá ári til árs.“ 

 

 

Viðtal / Ólafur Þór Jónsson

Mynd / Drexeldragons.com