Furman með óvænt tap gegn Samford

Kristófer hefur leikið sinn síðasta leik fyrir Furman

05.mar.2017  01:00 Oli@karfan.is

Kristófer Acox lék í kvöld sinn síðasta leik fyrir Furman háskólann í óvæntu tapi gegn Samford skólanum í úrslitakeppni SoCon deildarinnar. Furman sem endaði í öðru sæti deildarinnar mætti Samford sem var í sjöunda sæti. 

 

Skemmst er frá því að segja að Samford leiddi nánast allan leikinn og komst mest í 23-10 í fyrri hálfleik. Furman kom til baka og komst í fyrsta skiptið yfir í byrjun seinni hálfleiks en eftir það náði Samford tíu stiga forystu þegar ein mínúta var eftir. 

 

Kristófer og félagar náðu ótrúlegu áhlaupi og komu muninum niður í þrjú stig á þrjátíu sekúndum en Samford stóðst prófið og sigldu sigrinum heim með góðri vítanýtingu undir lok leiks. Lokastaða 67-63 fyrir Samford og tímabili Furman því formlega lokið. 

 

Kristófer hitti ekki nægilega vel í kvöld eða bara einu skoti í sex tilraunum. Á móti reif hann hinsvegar niður 13 fráköst og þar af 4 sókarfráköst. Einnig var hann með rosalegan varin bolta eins og sjá má á myndbandi hér að neðan:

 

 

Kristófer lýkur þar með fjögurra ára skólagöngu í Furman og hefur því leikið sinn síðasta leik fyrir félagið. Hann átti góð ár þar og sérlega gott lokaár þar sem hann var valinn í annað úrvalslið deildarinnar og safnaði tvöföldum tvennum. Því getur hann gengið stoltur frá liðinu og við taka spennandi verkefni svo sem Eurobasket í sumar þar sem Kristófer verður vafalaust á meðal leikmanna.