Leikmaður ársins í SSC deild háskólaboltans:

Elvar Már: Hef lagt mikið á mig á og er að uppskera eftir því

02.mar.2017  01:09 Oli@karfan.is

Framundan er úrslitakeppnin í bandaríska háskólaboltanum. Elvar Már Friðriksson og félagar í Barry háskólanum luku keppni í deildarkeppninni í vikunni og hefur Elvar verið að hlaða á sig verðlaunum. Í dag var hann valinn leikmaður ársins í sinni deild eða All-Sunshine State Conference (SSC) þar sem skólarnir í Flórída fylki etjast. Auk þess var hann valinn í lið tímabilsins ásamt liðsfélaga sínum. Þjálfari skólans var svo valinn þjálfari ársins í deildinni. 

 

Karfan.is náði tali af Elvari í gær fljótlega eftir að valið var kunngjört. Elvar kvaðst ánægður með verðlaunin en svaraði spurningum að sinni þekktu hógværð.

 

„Ég er bara sáttur með að fá þessi verðlaun. Það hefur gengið vel hjá okkur í ár og hef ég sjálfur lagt mikið á mig á tímabilinu til þess að bæta minn leik og er að uppskera eftir því. Það voru fleiri úr mínu liði sem hefðu getað fengið þessi verðlaun svo ég er fyrst og fremst heppinn að vera í góðu liði.“ sagði Elvar en hann var einnig valinn varnarmaður vikunnar, bætti persónulegt stigamet og vann Barry síðasta leik deildarkeppninnar örugglega í þessari viku.

 

„Við spiluðum vel í síðustu viku og það er jákvætt að fara inn í nýtt mót sem er að byrja, með gott sjálfstraust. Það má lítið misstíga sig í þeim leikjum því það er útsláttarkeppni svo við erum á fínum stað fyrir þá keppni, vonandi náum við að halda áfram að spila vel svo við náum að lengja tímabilið hér.“ bætti Elvar svo við.

 

Elvar var einnig valinn nýliði ársins í fyrra auk þess að hafa unnið leikmaður vikunnar þrisvar á þessu tímabili. Það verður spennandi að fylgjast með næstu skrefum Elvars en hann var viðmælandi í áramótaviðtali Karfan.is fyrir nokkru og sagði þá einnig frá framtíðarplönum sínum. En Elvar var í landsliðshópnum fyrir undankeppni Eurobasket og stimplaði sig rækilega inn með frábærri frammistöðu gegn Sviss. 

 

Viðtal / Óli Þór

Mynd: Gobarrybucs.com