Feðgarnir Kristófer og Terry í jólaviðtali Karfan.is

Kristófer Acox: Erfiðasti tími lífs míns

25.des.2016  14:14 nonni@karfan.is

Kristófer Acox útskrifast frá Furman háskólanum í Bandaríkjunum næsta vor. Þar með lýkur fimm ára veru Kristófers vestanhafs er hann mun útskrifast í „Health Science“ eða heilbrigðisvísindum. Við höfum séð íslensk ungmenni fara út í skóla og ekki ná að ljúka námi af fjölbreyttum ástæðum og viðurkenndi Kristófer við Karfan.is að oft hafi verið á brattann að sækja og heimþráin gert vart við sig en baklandið hans ytra hafi gert það að verkum að hann er nú að ljúka háskólanámi. Karfan.is ræddi við feðgana Kristófer Acox og Terry Acox sem búsettur er ytra ásamt hálfsystkinum Kristófers en þeir feðgar hafa náð vel saman síðan Kristófer hélt til Bandaríkjanna.


Ánægður þegar hann valdi Furman
 

Terry Acox lék hér á Íslandi um tíma og gat sér gott orð sem mikill listamaður í háloftunum, eins og gefur að skilja skildi hann eftir afleggjara af sjálfum sér í Kristófer á Íslandi sem í dag er nú orðinn A-landsliðsmaður. Terry sagði frábært að fá strákinn til Bandaríkjanna. „Þetta hefur verið frábært, ég á ekki til orð sem fá því lýst yfir þessu öllu saman. Mér finnst eins og það hafi verið í gær sem Kristófer var 12-13 ára og vildi fara að spila körfu. Að fá tækifæri til þess að vera með honum, sjá hvernig hann hefur þróast gerir mann stoltann og ég veit að bæði móðir hans og stjúpmóðir eru báðar afar stoltar af því sem hann hefur afrekað,“ sagði Terry sem býr í tæplega tveggja klukkustunda fjarlægð frá Furman-háskólanum þar sem Kristófer dvelur.


(Terry Acox og Kristófer Acox)

„Að Kristófer skyldi velja Furman gladdi okkur ólýsanlega, skólinn er nálægt okkur sem fjölgar þeim tækifærum sem við fáum til þess að hittast og verja tíma saman. Kristófer er önnum kafinn enda skólinn krefjandi námslega séð og körfuboltinn líka en á undirbúningstímabilinu höfum við náð góðum tíma saman. Ég get ekki lofað Kris nægilega mikið fyrir það hvernig hann tekst á við sín verkefni, þú ert það sem þú leggur í verkin þín! Kristófer var fremur mjór þegar hann kom hingað út en hefur unnið vel með mönnum á borð við Danny Ironman Samuel, Tyrone Corbin og Xavier McDaniel,“ útskýrir Terry og ljóst að það hafa engir aukvisar verið að ráðleggja okkar manni þarna ytra enda kjötið á Kristófer orðið umtalsvert meira en þegar við sáum hann síðast hér í úrvalsdeildinni á Íslandi.


„Kristófer ólst upp á Íslandi en þegar hann kom til Spring Valley í miðskóla fengum við tækifæri til þess að tengjast og það færði okkur nær hver öðrum,“ en eins og gefur að skilja var Terry ekki mikið inni í myndinni á uppvaxtarárum Kristófers þar sem hann lék atvinnubolta í öðrum löndum og settist svo að í Bandaríkjunum. „Í Spring Valley töluðum við mikið saman og við erum virkilega sterkir á Snapchat,“ sagði Terry og hló en Kristófer eins og önnur ungmenni gefur ekki mikið fyrir tækni pabba síns á snjalltækjunum.


„Ég stend við bakið á honum og reyni að beina Kris í rétta átt á sínum ferli og deili með honum af reynslu minni svo hann þurfi ekki að gera sömu mistök og ég. Þegar ég var í þessu lenti maður í ýmsum aðstæðum og þá vildi maður oft bara fara úr þeim aðstæðum. Hefði ég bara haldið út, sýnt af mér meira þrek þá hefði útkoman örugglega orðið betri en ég hafði ekki mikla leiðsögn og á þessum tíma hefði verið nauðsynlegt fyrir mig að hafa sterka og jákvæða fyrirmynd. Sumar þær ákvarðanir sem ég tók sköðuðu minn feril,“ sagði Terry og var óhræddur við að fara út í þá saumana enda telur hann sína reynslu eiga að nýtast Kristóferi til góðs.


(Kristófer gaf föður sínum A-landsliðsbúninginn sinn)

Heimþráin eitt það erfiðasta sem ég hef glímt við


Þeir feðgar fara ekki leynt með að á tímum glímdi Kristófer við mikla heimþrá og nokkrum sinnum stefndi allt í að hann myndi segja skilið við skólann og flytjast aftur heim til Íslands. „Hann var haldinn mikilli heimþrá enda bróðurpartur af lífi hans á Íslandi. Að láta það frá sér, fara frá vinum sínum og fjölskyldu er mikið menningarsjokk,“ sagði Terry og Kristófer bætir við að hann eigi móður sinni og fjölskyldu sinni í Bandaríkjunum mikið að þakka þá staðreynd að hann sé ennþá úti og sé að klára skólann.


„Þetta hefur verið mikið upp og niður,“ útskýrði Kristófer. „Fyrsta árið mitt og fyrsta önn á öðru ári voru erfiðustu tímar lífs míns. Ég spilaði ekki mikið, var fjarri heimahögum, var nýliði í nýjum körfubolta. Álagið á æfingum var mikið, æfingar alla daga og svo braut ég á mér fótinn og var mikið í endurhæfingu. Þetta var ofboðslega erfitt og áður en liðið fór að æfa fyrir mitt annað ár hér úti var ég alvarlega að hugsa um að fara heim,“ sagði Kristófer sem útskrifast í Health Science í árslok eða heilbrigðisvísindum.


„Á þessum tíma var ég þegar kominn í samband við nokkur lið á Íslandi til að kanna möguleikana á því að koma heim. Ég átti gott samtal við Finn Frey Stefánsson þjálfara KR þegar ég var hvað mest efins. Við ræddum þetta vel og lengi og svo ræddi ég þetta við foreldra mína og þau ýttu mér í gegnum þennan hjall. Svo fór að ég kláraði annað árið mitt og þá fannst mér ég vera hálfnaður og ákvað bara þá að halda þetta út! Þá lauk ég við þriðja árið og ef ég klára þetta ekki núna mun ég sjá á eftir því alla ævi,“ sagði Kristófer sem telur fólk almennt ekki gera sér grein fyrir því hve erfiðar þessar aðstæður geta í raun og veru orðið.


„Ég held að fólk átti sig ekki á því hvað er að vera á þessum aldri, yfirgefa sínar aðstæður til lengri tíma í framandi menningu. Í íslensku samfélagi eru svo rosalega fáir sem upplifa svona, skilja svona sem gerir það að verkum að maður á í raun ekkert gríðarlega marga að sem hægt er að leita til. Oft efast maður en þetta eru nákvæmlega þær fórnir sem maður þarf að færa þegar lagt er upp í svona verkefni. Það eru plúsar og mínusar í þessu og ég sé alls ekki á eftir ákvörðunum mínum, þetta ferli hefur þroskað mig og gert mig að manni. Heimþráin er mjög erfið viðureignar svo ég er stoltur þegar ég lít til baka á það sem ég hef þegar afrekað.“


(Kristófer ásamt Ednu Jacobsen móður sinni)

Ísland, Evrópa, NBA ?


Kristófer hefur þegar komið sér fyrir innan íslenska landsliðsins og nú þegar degi tekur að halla í Furman þarf að huga að framtíðinni, hvað ber hún í skauti sér? Er það Ísland í einhvern tíma, Evrópa eða jafnvel NBA?


Terry greip þennan bolta á lofti: „Þær ákvarðanir sem Kristófer tekur eru hans eigin, en ef NBA kallar þá er það annað mál,“ sagði Teyrri og hló en þeir feðgar gerðust fljótt alvarlegri. Kristófer sagðist hafa hugsað mikið út í atvinnumennskuna undanfarið.


„Pabbi hefur verið í sambandi við mikið af umboðsmönnum en ég má ekkert tala við þá á meðan ég er í Furman útaf NCAA relgunum. Ég hef verið í Bandaríkjunum lengi og hef hugsað um að spila heima á Íslandi í eitt ár áður en ég reyni við eitthvað stærra en ef það kemur gott boð beint eftir háskólann er það eitthvað sem ég myndi skoða. Með því að skoða Ísland er ég fara heim til þess að spila mína atvinnumannastöðu og eitt ár heima gæti mögulega undirbúið mig undir að vera meiri „perimiter-player.“ Rétt eins og allir ungir menn vil ég að sjálfsögðu spila í NBA, sú lína er nær núna en nokkru sinni áður og ef ég fæ tækifæri í Camp eða Workout þá tek ég það alla leið en það breytir engu um áformin um atvinnumennskuna,“ sagði Kristófer og tók undir umleitanir blaðamanns um hvort þátttaka hans í forkeppni EruoBasket hafi hjálpað til við kynninguna á honum sem leikmanni.


„Forkeppni EuroBasket var góður gluggi. Eftir þarsíðasta sumar voru nokkrir umobðsmenn sem reyndu að hafa samband en eftir síðasta sumar var mun meiri áhugi og mikið kannað hvort ég ætlaði að fara beint í atvinnumennsku eða klára Furman. Þegar maður spilar gegn svona stærri þjóðum þá stækkar glugginn eins og við höfum séð í t.d. tilfellum Martins og Hauks og ég vona að það muni ganga líka þannig í mínu tilfelli,“ sagði Kristófer og Terry bætti við.


„Svona sýnileiki er mikið atriði og nú hefur Kristófer verið áberandi í gegnum tíðina með yngri landsliðum Íslands og nú aðalliðinu. Þetta líf er oft spurning um að vera á réttum stað á réttum tíma en menn verða að fara út á völlinn og leika af hörku á hverju kvöldi hvort sem það verður á EM í Finnlandi, á Íslandi eða í Bandaríkjunum. Það eru margir á ferli í þessum íþróttahúsum og því skiptir sköpum að standa sig!“Feðgarnir


Nokkrum sinnum hefur andað verulega köldu milli þeirra feðga Kristófers og Terry. Í dag eru þeir afar nánir en þar liggur að baki töluverð vinna en Terry segir fátt eins og tengsl föður og sonar. „Kristófer er einkasonur minn og hann er ekki bara það heldur besti vinur minn,“ sagði Terry en móðir Kristófers er Edna María Jacobsen og bjó Kristófer hjá henni öll sín uppvaxtarár. Á sama tíma eignaðist Terry fjórar dætur í Bandaríkjunum og segir hann þær líta mikið upp til stóra bróður sem nú er einn af lykilleikmönnum Furman-háskólans.


„Við höfum gengið í gegnum margt síðan við vorum sameinaðir á nýjan leik með námi Kristófers hér úti. Það er í dag fátt ef nokkuð sem við getum ekki talað um, hann kemur til mín með sín mál og við tengjumst mjög vel,“ sagði Terry en við inntum hann eftir því hvort Kristófer kynni sig svona við bandaríska siði þar sem t.d. tíðasta að nota „sir“ og þéranir, siðir sem eru Íslendingum ekkert of tamir.


„Edna móðir hans ól hann vel upp og Kristófer er aldrei dónalegur og fólk í skólanum elskar hann og ég kann virkilega vel að meta hvernig hann ber sig sem einstaklingur og fæ að heyra það daglega og það er ánægjulegt að sjá ungt fólk bera sig með þessum hætti. Nú er ég í aðstöðu til þess að deila með honum minni reynslu en fleiri ungir menn í hans stöðu þurfa mun meiri fræðslu um þetta háskólalíf en þeir nokkurntíman fá,“ sagði Terry og Kristófer bætti við. „Andlegi þátturinn var oft svo erfiður í þessu að ég tel að hann hafi jafnvel haft áhrif á mig líkmalega, ef ekki hefði verið fyrir alla fjölskylduna mína þá veit ég ekki hvernig þetta hefði farið. Ég lít stoltur til baka, lífið er oft ekki auðvelt en að læra af svona reynslu gefur manni mikið,“ sagði Kristófer.


Kristófer verður á Íslandi í nokkra daga núna yfir rauðustu jóladagana en heldur svo út aftur til Furman sem á leik á gamlársdag gegn Citadel. Hann hefur komið sér rækilega fyrir sem einn af lykilmönnum Furman og mun vafalítið skipa stórt hlutverk í íslenska liðinu á EuroBasket 2017 í Finnlandi og takist vel til þar er varla líklegt að pælingin hans um eitt ár á Íslandi áður en frekari atvinnumennska er skoðuð fái staðist.

Þann 22. desember síðastliðinn tapaði Furman naumlega gegn Michigan háskólanum 62-68 þar sem Kristófer var með 6 stig og 5 fráköst en Furman hefur leikið 14 leiki á timabilinu og unnið 8 þeirra og Kristófer með með 10,8 stig og 6,6 fráköst að meðaltali í leik.

Myndir/ Karfan.is og úr einkasafni