Opið bréf til fullorðna fólksins

11.des.2016  10:10 davideldur@karfan.is

 

Kæra fullorðna fólk

 

Ákveðinn yngri flokka leikur hefur verið í umræðunni síðustu vikur vegna þess hve ójafnt stigaskorið í honum var. Það þarf ekki að taka þennan ákveðna leik fyrir enda er hann ekki sá fyrsti sem spilast hefur á þennan máta í yngri flokkum á Íslandi. Sama hvaða aldur er tekinn fyrir þá er óhætt að segja að í yngri flokkum er sjaldséð að liði takist að skora 100 stig í einum leik. Það mætti ganga svo langt að segja að sjaldséð sé að lið skipað leikmönnum á grunnskólaaldri skori meira en 60 stig. Þessir ungu leikmenn eru enn í mótun og oft er getumunurinn mikill, það eiga allir langt í land en að vísu mis langt.

 

Það hversu vel leikmenn standa hefur ekki einungis með gæði þjálfunar eða eigin áhuga að gera. Í einu liði geta bæði raðast saman einstaklingar sem fengu bolta í hendurnar áður en þeir voru byrjaðir að ganga og sömuleiðis krakkar sem mættu á fyrstu æfinguna fyrir nokkrum vikum bara til að prófa vera með. Þá getur alltaf gerst að tvö lið mætist þar sem annað liðið er eingöngu skipað “reynsluboltum” en hitt liðið byrjendum. Þegar svona raðast, þegar ekki er að því að spyrja hvort liðið mun fara með sigur af hólmi, þarf þá ekki fullorðna fólkið að spyrja sig hvað er þátttakendum fyrir bestu?

 

Það er erfitt að draga línuna þegar að kemur að íþróttum því þær snúast jú um að keppa. Það má þó ekki vera eina markmiðið sem á að hamra á við unga leikmenn. Það er vissulega gaman að sigra en það má ekki gleymast að það á að vera gaman af því að einfaldlega spila, æfa og vera með. Sem mótunaraðilar þá ber okkur skylda til að rækta ást barnanna á íþróttinni allt frá fyrstu æfingu. Börn í íþróttum þurfa sjaldnast aðstoð með keppnisskapið, það skortir vanalega ekki, en ef eitthvað er þá væri helst að aðstoða þá sem hafa óhóflega mikið keppnisskap sem getur leitt þá í vandræði.

 

 

Gott dæmi um aðstæður þar sem keppnisskapið spilar inn eru minniboltamót þar sem ekki á að telja stig. Það er engin stigatafla, engin skýrsla, en það má alltaf treysta á að krakkarnir séu sjálf að telja stigin og hugsa um hver sigrar að lokum. Það er ekkert að því að vilja keppa og sigra, það kemst enginn langt í íþróttum án slíks drifkrafts. Það er hins vegar margt og mikið að því að upphefja einhvern á kostnað annars. Hvers virði er sigur eins liðs ef það brýtur niður þá sem tapa? Einhverjum kann að þykja það barnalegur hugsunarháttur en við erum öll í sama liði, öll að reyna það besta fyrir íþróttina og það græðir enginn á því að börn missi áhugann strax á unga aldri. Kannski er það barnalegt en þetta eru líka börn sem við erum að kenna.

 

Ég sem körfuboltaleikmaður þekki það vel að hafa spilað mjög ójafna leiki og þá bæði sigrað slíka leiki sem og tapað. Ég man eftir ótal mörgum leikjum gegn bestu liðunum í mínum aldursflokki þar sem mitt lið einfaldlega vissi að við myndum ekki sigra. Það var engin uppgjöf eða áhugaleysi heldur bara kalt mat á óyfirstíganlegum getumuni. Vissulega mætti maður í hvern leik og gaf allt sitt í þá, vitandi að það myndi ekki duga, en það var ekki neitt sérstaklega gaman.

 

Ég hef einnig verið í sigurliði leiks sem fór 116-4 og ég verð bara að viðurkenna að ég man ekkert eftir honum. Það var tilviljun að ég rakst á gamla frétt um mótið þar sem þessi leikur spilaðist og ég hef ekki með nokkru móti getað náð fram einni minningu um hann. Liðið mitt vann 112 stiga sigur og það situr ekkert eftir, ekki eitt brot. Stigahæstu leikmenn okkar skoruðu um 30 stig eða um það bil jafn mörg stig og liðin á þessum aldri skoruðu samtals í einum leik. Þessi tiltekni leikur var greinilega ekki eftirminnilegur en ég get rifjað upp fjölda leikjanna sem liðið mitt tapaði stórt og hversu neikvætt það var fyrir liðið að finnast það niðurlægt á vellinum. Ég hef mikið velt því fyrir mér hvernig upplifun liðsins sem við sigruðum svona stórt var. Það var skipað stelpum sem allar voru búnar að æfa í rétt um mánuð, algjörir byrjendur gegn liði sem hafði spilað saman í mörg ár. Núna sem fullorðinn einstaklingur get ég gefið mér að það hafi ekki verið jákvæð byrjun á þeirra körfuboltaferli.

 

 

Það er mjög erfitt að segja hvar á að draga línuna. Á svona margþættu máli eru svo margar hliðar, upplifanir og skoðanir. Það sem oft virðist vera aðalefnið í umræðunni er þessi niðurlæging sem ég nefndi, neikvæðu áhrifin á þá sem tapa. Það er vissulega vandamál sem þarf að taka á, sem ég get ekki gert hér með skrifunum einum, en það er ekki eina hliðin. Það þarf líka að hugsa um þá sem sigra leik, þá sem einfaldlega eru afgerandi betri eða lengra komnir í sinni íþrótt. Það þarf að hugsa um alla.

 

Hvað græðir yfirburðar gott lið á því að mega ekki spila af fullri getu? Eru þessir krakkar ekki mættir til keppni til að ná framförum? Jú ætti svarið að vera, en á kostnað hvers? Stendur einhver uppi sem sigurvegari þegar sigurinn er á kostnað vilja annarra til að reyna sitt besta? Er sigur eins þess virði að annar glati áhuganum á íþróttinni? Þjálfarar og aðstandendur bera kannski einungis ábyrgð á sínum leikmönnum en þar með er ekki hægt að neita að sýna andstæðingnum skilning og hugsa um hagsmuni heildarinnar. Að sama skapi mætti vel spyrja hver ágóði yfirburða góðs liðs er að spila gegn liði sem veitir litla sem enga mótstöðu? Fæst tölum við um að framfarir náist með því að vera risa fiskur í lítilli tjörn. Framfarir verða sjaldan við það að þurfa hafa ekkert fyrir hlutunum.

 

Í þessari grein er ég að tala um börn, ekki atvinnumenn eða meistaraflokksleikmenn. Þetta eru ekki fullorðnir einstaklingar sem hafa ákveðið að tileinka mörgum klukkutímum á dag í það að verða besti leikmaðurinn sem þeir geta orðið. Já þau þurfa að fá að keppa og já íþróttir snúast mikið um það að ná góðu gengi, en hvað með hina? Við munum aldrei öll standa jöfn, við erum ólík og búum við mis góðar aðstæður til að verða besta mögulega útgáfan af okkur sjálfum. Börn eru ekki afreksfólk og þau eiga ekki að vera það. Það verður auk þess ekki til afreksfólk án þess að ást og áhugi sé til staðar. Ef við ímyndum okkur tvo algjörlega jafn vel byggða einstaklinga, sem æfa jafn mikið og fá allt jafnt nema sjálfa ástríðuna fyrir íþróttinni, hvor haldið þið að geti náð lengra? Einn mikilvægasti þátturinn í því hvað býr til gott íþróttafólk er þessi ástríða, ósýnilegi drifkrafturinn sem getur trompað svo margt.

 

Það verður enginn Michael Jordan á því einu að fá bolta í hendurnar. Það liggur svo ótal margt að baki. Það þarf aga en einnig leik, kapp en einnig sanngirni, ákveðni en einnig virðingu, og umfram allt þá þarf hjartað að slá fyrir íþróttina. Við erum að ala upp leikmenn og okkur ber skylda að eyðileggja ekki fyrir leikmönnum annarra til þess að upphefja okkar eigin. Þetta eru börn og þau eru framtíðin, meðal þeirra leynist næsta kynslóð landsliðsfólks og í þeirra höndum eru afrekin. Þau hafa allt sem til þarf innra með sér, okkar hlutverk er að hjálpa þeim að draga það fram og beina þeim áfram í leitinni að því að verða besta útgáfan af sjálfum sér því oftar en ekki mun það fylgja að þau verði besti mögulegi leikmaðurinn sem þau geta orðið.

 

-Elín Lára Reynisdóttir