Opið bréf til stuðningsmanna

21.okt.2016  08:00 elin.reynisdottir@gmail.com

Kæri aðili í stúku,

Ég veit ekki hvað þú heitir né heldur langar mig til þess. Ég veit ekki hvernig þú tengist þínu körfuboltaliði né heldur skiptir það máli. Það sem ég veit er að þú ert fullorðinn einstaklingur með lífsreynslu og þ.a.l. vissa dómgreind og þekkingu um ásættanlega hegðun. Í kvöld velti ég því fyrir mér hvers vegna þú kaust að koma á leikinn. Venjan er að þangað mæti stuðningsmenn en á þeim tíma sem ég neyddist til að sitja nálægt þér sagðir þú ekki eitt styðjandi orð. Þú lagðir hins vegar mikið upp úr því að tjá þína skoðun allan liðlangan leikinn, því miður fyrir okkur hin sem vildum einfaldlega njóta þess að horfa á 2 frábær lið spila körfubolta.

 

Sem leikmaður í deildinni þarf ég ekki að greiða inn á leikinn en ef ég hefði borgað inn hefði ég íhugað að labba til þín eftir leik og athuga hvort þú værir til í að endurgreiða mér miðann úr eigin vasa. Ég hugsa nefnilega að ekki einn einasti aðili í húsinu hafi greitt sig inn til að þurfa þola dónaskapinn í þér í hátt í 3 klukkutíma. Í stað þess að leggja svona mikið á þig við að áreita bæði dómarana og leikmenn með nafni og dónaskap langar mig að leggja til að þú lærir frekar nöfnin á leikmönnunum í þínu félagi og reynir að hrósa þeim fyrir þeirra afrek á vellinum.

 

Það er málinu óviðkomandi hver þú ert eða hvaða félag þú styður því þú ert einungis einn af mörgum sem finnst ekkert athugavert við að sýna svona hegðun. Það sátu meðal annars ung börn nógu nálægt þér til að heyra hvert orð sem þú sagðir. Þau þurftu ekki einu sinni að vera sérstaklega nálægt, öskrin bárust hátt og vel. Þú ert ekki stuðningsmaður, þú ert til skammar. Ef ég væri leikmaður í þínu liði myndi ég skammast mín fyrir þig. Okkur iðkendunum er kennt að bera virðingu fyrir andstæðingum og starfsmönnum leiksins. Þú gerir lítið úr því starfi með þessari framkomu. Þú gerir lítið úr þeim gildum sem við viljum kenna íþróttafólkinu okkar. Þú grefur undan valdi dómaranna á vellinum og þú ert ekkert nema slæm fyrirmynd, ákveðin plága sem er löngu tímabært að uppræta.

 

Íþróttir eru keppni en einnig skemmtun. Það er mikilvægt að halda í leikgleðina því hún er það sem heldur börnum í íþróttum til lengdar. Íslenska karfan hefur aldrei verið sterkari og ég held að mér sé óhætt að segja að við erum öll að springa úr stolti yfir þeim árangri sem íslenskir leikmenn eru að ná á alþjóðasviðinu. Við segjum að leikmenn þurfi að þola ákveðinn dónaskap, en afhverju? Afhverju ætti nokkur leikmaður að þurfa sæta árásum, sem oftar en ekki eru persónulegar og særandi, fyrir það eitt að vera í treyju á vellinum? Við sem spilum á vellinum erum mennsk, við erum ekki bara númerið á bakinu og þér ber að sýna okkur virðingu. Við heyrum, skiljum og særumst við eins og hver annar. Okkur er kennt að hundsa en hvað með að kenna “óstuðningsmönnum” eins og þér að einfaldlega þegja? Hættum að kenna fórnarlambinu að þola. Það er magnað hvað stök orð geta sótt á huga manns og haft varandi áhrif. Mundu það næst þegar þú ræðst á karakter leikmanns eða reynir að kenna fullhæfum dómurum hvernig þeim ber að vinna sína vinnu.

 

Hugsaðu, hegðaðu þér, hættu. Haltu annars heim og hlífðu okkur hinum.