Hannes Birgir skoðar málin

Úrslitakeppni NBA 2016 – Úrslit deilda

16.maí.2016  14:28 nonni@karfan.is

Jæja þá fer að styttast í úrslit NBA deildarinnar og komið er að úrslitum austur- og vesturdeilda; Clevaland Cavaliers og Toronto Raptors mætast austan megin og Golden State Warriors og Oklahoma City Thunder mætast vestan megin.


En fyrst upprifjun á síðustu spá minni en ég var með 50% árangur (lið sem komust áfram):


Golden State Warriors – Portland Trail Blazers

Ég var með þessa viðureign rétta – meira að segja fjölda leikja J en Golden State vann nokkuð létt í fimm leikjum. Steph Curry mætti aftur til leiks eftir hnémeiðsli í síðustu tveimur leikjunum og eftir rólega byrjun í fyrsta leiknum brilleraði hann og sýndi hvers vegna hann var valinn mikilvægasti leikmaður tímabilsins 2015-2016 með öllum greiddum atkvæðum sem hafði aldrei gerst áður.


San Antonio Spurs – Oklahoma City Thunder

Hér spáði ég svakalegri rimmu sem Spurs myndu vinna í oddaleik en það fór á annan veg! Spurs hreinlega burstaði OKC í fyrst leiknum með yfir 30 stiga mun og þá héldu nánast allir að serían myndi klárast í fjórum leikjum en Durant, Westbrook og félagar voru á öðru máli og unnu fjóra leiki af næstu fimm og seríuna 2-4. Steve Adams var að mínu mati X-factorinn sem gerði gæfumuninn. Kawhi Leonard og LaMarcus Aldridge báru uppi leik San Antonio en aðrir leikmenn liðsins voru því miður með of lítið framlag og spáin mín því alröng og Thunder vann seríuna í sex leikjum.


Cleveland Cavaliers – Atlanta Hawks

Lítið þarf að fjalla um þessa viðureign, Cleveland miklu betra lið og fátt sem virðist geta stöðvað liðið í að sigra austrið! LeBron James frábær ásamt Kevin Love og Kyrie Irving og liðið hreinlega virtist ekki klikka á þriggja stiga skotum og settu m.a. met í fyrsta leiknum með því að setja niður 25 þrista. Al Horford, Jeff Teague og kannski sérstaklega Dennis Schroeder reyndu hvað þeir gátu en áttu ekkert svar við leik Cavaliers, hvorki í vörn né sókn. Ég spáði Cleveland sigrí í sex leikjum en þeir unnu í fjórum og hafa ekki tapað leik í úrslitakeppninni þetta árið! 


Toronto Raptors – Miami Heat

Hvað er hægt að segja um þessa viðureign? Ég spáði Miami sigri í sex leikjum en Toronto sigraði í oddaleik á heimavelli ekki síst af því að Kyle Lowry vaknaði til lífsins og átti frábæra leiki. Annars einkenndist þessi sería af meiðslum en lykilleikmenn beggja liða – byrjunarmiðherjarnir Jonas Valanciunas hjá Toronto og Hassan Whiteside meiddust og við það breyttust leikirnir til muna og virtist það henta Toronto betur. 

 

Austurdeild


Cleveland Cavaliers – Toronto Raptors

4-0! Þarf að velta eitthvað fyrir sér hvernig þessi sería fer? Jonas Valanciunas meiddur og spilar ekki til að byrja með ef nokkuð, Cleveland á þvílíkri siglingu og sýnir fáa ef nokkra veikleika í leik sínum. Ég held þetta verði nokkuð létt og eina spurningin er hvort Cleeland byrji seríuna eitthvað ryðgaðir eftir langa hvíld? Toronto vann tvo af þremur leikjum liðanna í vetur og hafa engu að tapa - allir búast við því að þeir tapi (nema kannski þeir sjálfir?). Kyle Lowry verður að halda áfram þar sem frá var horfið í Miami seríunni og DeMAr DeRozan verður að ná að yfirbuga J. R. Smith og Iman Shumpert en þeir verða örugglega settir til höfuðs honum í vörninni líkt og gegn Korver í Atlanta seríunni. Ef Lowry og DeRozan ná að spila eins og í oddaleiknum á móti Miami þá á Toronto einhvern séns en ég sé það ekki gerast á móti vörn Cleveland. Cleveland liðið er búið að vera á mikilli siglingu í þessari úrslitakeppni, hefur ekki tapað leik og finnst mér liðið hafa farið vaxandi með hverjum leik. LeBron James er að spila frábærlega, Kevin Love og og Kyrie Irving líka, J. R. Smith hefur spilað frábæra vörn og sókn, Channing Frye hefur komið inná sem varamaður og sallað niður þristum og Tristan Thompson virðist taka öll fráköst sem í boði eru! Ég hallast að því að Cleveland vinni þessa seríu létt og tapi ekki leik í úrslitakeppni austurdeildarinnar að þessu sinni.

Mín spá Cleveland 4 - Toronto Raptors  0

 

Vesturdeild


Golden State Warriors – Oklahoma City Thunder

Þetta ætti að verða skemmtileg viðureign, bæði liðin eru að spila frábærlega í úrslitakeppninni og verður spennandi að sjá hvort liðið hefur sigur í seríunni! Golden State vann allar þrjár viðureignir liðanna í vetur en leikirnir voru jafnir og einn leikurinn endaði í framlengingu með flautukörfu Steph Curry frá miðju! Oklahoma er með Kevin Durant og Russell Westbrook báða ómeidda í fyrsta skipti í úrslitakeppni og þeir spiluðu frábærlega gegn San Antonio og verða að halda því áfram eigi liðið að komast í úrslit. Sérstaklega er mikilvægt að Westbrook nái að spila sinn leik og halda haus því þegar honum tekst það er hann einn allra besti leikmaður deildarinnar. Skapið hefur þó stundum komið honum um koll og hann ætlað sér of mikið og tapar þá of mörgum boltum sem getur reynst banvænt gegn vörn Golden State. Oklahoma stendur og fellur með þessum tveimur leikmönnum en aðrir leikmenn liðsins verða einnig að mæta til leiks eins og Steve Adams sem átti frábæra seríu gegn Spurs og Dion Waiters sem hefur farið vaxandi í úrslitakeppninni. Mikið hefur verið talað um að Durant fari jafnvel frá liðinu í sumar (hann er með frjálsan samning) en eins og liðið hefur verið að spila þá held ég að það gerist varla, hvað þá ef liðið fer í úrslit. Golden State með Steph Curry í broddi fylkingar eru ríkjandi meistarar, settu met með því að vinna 73 sigra á leiktíðinni og eru á pappírnum með sterkara lið. Meiðsli hrjá lykilleikmenn liðsins - Curry er nýkominn úr hnémeiðslum og Draymond Green og Andrew Bogut eiga við meiðsli að stríða sem gætu haft áhrif á leik þeirra. Það er erfitt að sjá Golden State tapa í sjö leikja seríu gegn nokkru liði í dag en liðið hefur leikið frábærlega í vetur, Curry, Klay Thompson, Green, Bogut, Andre Iguodala, Harrison Barnes, Shaun Livingston og Leandro Barbosa þekkja allir sín hlutverk og leysa þau frábærlega. Ég held að breiddin sé mun meiri hjá Golden State og þótt ég sé ekki alveg tilbúinn að afskrifa Oklahoma (það er einhver tilfinning “in the back of my head” sem ég losna ekki við) þá held ég að Golden State Warriors hafi sigur í þessari viðureign og “hjartað” í liðinu Draymond Green verði “x-factor” í mest spennandi seríu ársins til þessa! 

Mín spá Golden State Warriors 4 – Oklahoma City Thunder 3

 

Samkvæmt minni spá þá mætast Golden State Warriors og Cleveland Cavaliers í úrslitum NBA deildarinnar 2016