Eyjólfur Ásberg Halldórsson besti maður úrslitaleiksins

ÍR Íslandsmeistari í Drengjaflokki

08.maí.2016  18:57 barakristins@gmail.com


ÍR varð í dag Íslandsmeistari í Drengjaflokki með sigri á Njarðvík í æsispennandi leik í Hertz-Hellinum. Eyjólfur Ásberg Halldórsson var valinn besti maður úrslitaleiksins en hann skoraði 24 stig, tók 13 fráköst og gaf 3 stoðsendingar. Hákon Örn Hjálmarsson var stigahæstur í liði ÍR með 31 stig auk þess að taka 5 fráköst og gefa þrjár stoðsendingar og Sigurkarl Róbert Jóhannesson skilaði 18 stigum og 13 fráköstum. Hjá Njarðvík var Adam Eiður Ásgeirsson stigahæstur með 23 stig og 4 stoðsendingar, Snjólfur Marel Stefánsson skoraði 17 stig og tók 9 fráköst, Gunnlaugur Sveinn Hafsteinsson var með 12 stig og Jón Arnór Sverrisson setti 9 stig, tók 6 fráköst og gaf 10 stoðsendingar.


Spennustigið var hátt á fyrstu mínútum leiksins og lítið gekk hjá liðunum í sóknarleiknum. Njarðvíkingar skoruðu fyrstu fjögur stigin en ÍR-inga komust ekki á blað fyrr en eftir tæplega fjögurra mínútna leik þegar Sigurkarl Róbert setti niður tvö stig eftir harða baráttu um boltann í teignum. Njarðvíkingar sigu fram úr í seinni hluta fyrsta leikhluta og leiddu að honum loknum með 8 stigum, 25-17 eftir að Jón Arnór setti niður tvö stig á lokasekúndunum.

Hákon Örn opnaði annan leikhluta fyrir ÍR með því að setja niður þriggja stiga körfu en Hermann Ingi Harðarson svaraði um hæl með þristi fyrir Njarðvíkinga. Á eftir fylgdu fimm Njarðvíkurstig í röð og munurinn kominn í 10 stig, 30-20. ÍR-ingar náðu að minnka forskot Njarðvíkur í tvö stig um miðbik leikhlutans en nær komust þeir ekki í fyrri hálfleik og Njarðvík leiddi í hálfleik með 4 stigum, 41-37.

Njarðvíkingar byrjuðu þriðja leikhluta af krafti og settu 5 stig á fyrstu mínútunni. Mikil barátta hjá báðum liðum en ÍR-ingar virtust sakna Hákons Arnar sem vermdi bekkinn í upphafi seinni hálfleiks eftir að hafa nælt sér í fjórar villur í fyrri hálfleik. Njarðvíkingar leiddu með 10 stigum þegar rétt um þrjár mínútur voru liðnar af seinni hálfleik og staðan 49-39. Þá tóku ÍR-ingar við sér, bæði inni á vellinum og í stúkunni. Þeir skoruðu 13 stig í röð og komust yfir í fyrsta sinn í leiknum í stöðunni 49-52. Þrjár þriggja stiga körfur Adam Eiðs Ásgeirssonar á lokamínútum leikhlutans tryggðu Njarðvíkingar fjögurra stiga forystu fyrir lokafjórðungin, 58-54. Breiðhyltingar komu gríðarlega vel stemmdir til leiks í fjórða leikhluta og Njarðvíkingar áttu fá svör við leik þeirra. ÍR sigraði að lokum með 9 stigum, 76-85, eftir æsispennandi leik og hömpuðu því Íslandsmeistaratitlinum í Drengjaflokki.

Njarðvík 76 - 85 ÍR (25-17, 16-20, 17-17, 18-31)

Myndir úr leik