Tindastóll 1 - 0 Keflavík

Stólarnir komu, sáu og stálu heimavellinum í Keflavík

17.mar.2016  23:55 davideldur@karfan.is

Keflavík 90 100 Tindastóll

 

Tindastóll sigraði Keflavík fyrr í kvöld á heimavelli þeirra síðarnefndu með 100 stigum gegn 90. Leikurinn var sá fyrsti í 8 liða úrslitum þessa árs. Tindastóll því komnir með forystuna í einvíginu 1-0. Næsti leikur liðanna fer fram komandi sunnudag á heimavelli Tindastóls, í Síkinu á Sauðárkróki.

 

 

Fyrir leikinn mátti kannski búast við hverju sem var. Keflavík í 3. sæti deildarkeppninnar á meðan Tindastóll sat í því 6. Samt aðeins 1 sigurleikur sem skildi þau að í töflunni. Mikið um það rætt að þegar að deildarkeppnin klárist fari gjörsamlega nýtt mót í gang með úrslitakeppninni. Eins og þar séu bara öll blöð auð. Það er kannski sett upp þannig svo að minni lið, eða þau sem eru á minna flugi en önnur fái að njóta vafans alveg þangað til að annað kemur í ljós. 

 

Hvað þessi tvö lið varðaði hafði einnig verið rætt um að Tindastóll væri að koma á, kannski fyrir utan Hauka, á hvað mestu flugi inn í úrslitakeppnina. Eftir frekar hæga byrjun móts höfðu þeir sigrað sjö síðustu leiki mótsins. Þar með talið íslands, deildar og bikarmeistara KR og Keflavík í Keflavík. Reyndar fór vetur þeirra svo að þeir voru eina liðið sem náði að vinna báða leiki sína gegn Keflavík. Keflavík aftur á móti eftir að hafa verið nánast taplausir fyrir áramót hikstað reglulega eftir áramót. Því kannski ekki skrýtið að á flestum bæjum hafi fólk gert því í skóna að það ætti eftir að verða Tindastóll, en ekki Keflavík sem færi áfram og í undanúrslitin.

 

Leikurinn fór fjörlega af stað. Ljóst var alveg frá fyrstu mínútu leiksins að hér væri um leik í úrslitakeppninni að ræða og að dómarar leiksins ættu eftir að hafa nóg á sinni könnu. Reggie Dupree opnar seríuna á þrist. En eftir það áttu liðin frekar erfitt með að koma knettinum í körfuna. Bæði lið að spila fantavörn, þó Tindastóll sér í lagi og sigla þeir nokkrum stigum framúr heimamönnum strax á þessum fyrstu mínútum. Eru 4 stigum yfir þegar að hlutinn er hálfnaður, 7-11. Strax í þessum fyrsta leikhluta fyrsta leiks rimmunnar lítur fyrsta óíþróttamannslega villan dagsins ljós. Einhverskonar stympingar eru á milli leikmanns Keflavíkur, Jerome Hill og Myron Dempsey þegar að lið Tindastóls er að fara í sókn. Tindastóll komst mest 10 stigum yfir í leikhlutanum, en lið Keflavíkur virtist ekki almennilega vera að virka saman sóknarlega fyrr en að varamennirnir Ágúst Orrason, Andrés Kristleifsson og Davíð Páll Hermannsson komu inn á völlinn. Eftir fyrsta leikhlutann voru gestirnir með 7 stiga forystu, 21-29.

 

Í byrjun 2. leikhlutans bregða heimamenn á því að herða á vörn sinni og fara að pressa allan völlinn á Tindastól. Þetta gefst þeim ágætlega þessar fyrstu mínútur, en þeir ná hinsvegar ekki að vinna mun þeirra niður neitt að ráði. Einn erlendra leikmanna Tindastóls, Anthony Gurley á virkilega góða innkomu um miðjan fjórðunginn. Setur 2 þrista í röð á Keflavík með stoppi á milli. Ekki þótti þeim fjölmörgu áhangendum norðanmanna sem fylgt höfðu liði sínu alla leið suður með sjó það leiðinlegt. Létu vel í sér heyra. Eitthvað var um dýfudóma hjá dómurum leiksins í leikhlutanum. Einn þeirra átti eftir að verða Keflavík dýr seinna í leiknum. Hvort þeir hafi átt rétt á sér verður ekki úr um skorið hér. Við verðum eiginlega að gera ráð fyrir að dómarar leiksins hafi verið starfi sínu vaxnir og að þarna hafi verið um réttar ákvarðanir að ræða. Þeir uppskáru hinsvegar mikla andúð heimamanna í staðinn, en stuðningsmenn Keflvíkinga verða seint sakaðir um að setja ekki spurningamerki við stöku dóm. Þegar að liðin héldu til búningsherbergja í hálfleik leiddu gestirnir með 6 stigum, 48-54.

 

Atkvæðamestur fyrir heimamenn í hálfleik var Jerome Hill með 8 stig og 4 fráköst á meðan að fyrir Tindastól var það Myron Dempsey sem dróg vagninn með 21 stigi og5 fráköstum.

 

Í þriðja leikhlutanum var Tindastóll svo aftur skrefinu á undan. Keflvíkingar voru að láta hlutina fara í taugarnar á sér, dálítið eins og þeir höfðu reyndar verið allan fyrri hálfleikinn. Tæknivillurnar halda áfram, Jerome Hill fær eina dæmda á sig tæknivillu (eða hvort hún fór á bekkinn, af hans sökum þó) eftir að hafa fengið dæmdan á sig ruðning og uppsker mikla, mikla mæði þjálfarans í staðinn, sem og sína 4. villu. Fyrirliði Keflavíkur fær einnig dæmda á sig tæknivillu, eftir að hafa sagt einhverja ranga hluti við Helga Margeirsson eftir (venjulegt) brot á honum. Önnur tæknivilla Magnúsar (dýfan í fyrri hálfleik) og honum því gert að yfirgefa húsið. Þegar að leikhlutinn var á enda voru gestirnir komnir með forskot sitt í 10 stig, 69-79.

 

Snemma í fjórða leikhlutanum var ljóst að þrátt fyrir þetta, að er virtist, ráðleysi sem heimamenn væru í með hausinn á sér í þessum leik, myndu þeir ekki gefa Tindastól neitt eftir. Skera muninn aftur niður í 6 stig um miðbygg hans, 80-86 og komast svo á næstu mínútum enn nær. Minnstur varð munurinn 2 stig þegar um mínúta var eftir, 88-90, en þá tók Darrell nokkur Lewis til sinna ráða og setti risastóran þrist. Stelur svo boltanum í sókninni á eftir. Þegar um 30 sekúndur voru eftir var staðan 90-95 fyrir Tindastól. Sóknartilburðir Keflavíkur misstu marks eftir þetta ofaná ennþá fleiri tæknivillur og að lokum náði Tindastóll að sigla þessu heim með 10 stiga mun, 90-100.

 

Heilt yfir spilaði Tindastóll virkilega flottan leik í kvöld og uppsker eftir því, 1-0 forystu í einvíginu. Augljóst hinsvegar að ef að Keflavík ætlar sér ekki að fara snemma í sumarfrí, þá þurfa þeir að framkvæma einhversskonar sáluleit, hugleiða, eða eitthvað í þá áttina og það fyrir sunnudaginn. Því þá er næsti leikur.

 

Maður leiksins var leikmaður Tindastóls, Myron Dempsey, en hann skoraði 31 stig og tók 9 fráköst á aðeins 26 mínútum.

 

Tölfræði

 

Myndir

 

 

Umfjöllun, viðtöl / Davíð Eldur

 

Myndir / SBS

 

Viðtöl: