Fyrsti bikartitill Snæfellskvenna

Stórveldið Snæfell komið í sögubækurnar

13.feb.2016  16:37 nonni@karfan.is

Snæfell er Poweradebikarmeistari kvenna eftir 78-70 sigur á Grindavík í fjörugum og spennandi úrslitaleik liðanna í Laugardalshöll. Hólmarar voru við stýrið, Grindvíkingar gerðu nokkrar heiðarlegar tilraunir til þess að komast nærri en Snæfell stóðst álagið og landaði fyrsta bikartitli kvennaliðs félagsins í sögu Snæfells. Ósvikinn fögnuður Íslandsmeistaranna braust út í leikslok þar sem Haiden Palmer var verðskuldað valin Lykil-maður leiksins með bráðmyndarlega þrennu, 23 stig, 13 fráköst og 10 stoðsendingar. Frazier í liði Grindavíkur átti einnig sterkan dag með 28 stig, 17 fráköst og 5 stoðsendingar. Með sigrinum er kvennaliði Snæfells óhætt að kalla sig stórveldi, báðir titlar komnir í hús og hlutabréfin í félaginu í sögulegu hámarki!


Grindvíkingar reyndu ýmislegt eins og fjölbreytt varnarafbrigði en það sem varð þeim að aldurtila í dag var einfaldlega sú staðreynd að skotin vildu ekki niður! Petrúnella Skúladóttir komst ekki á blað, 0-8 í teig og 0-5 í þristum, Ingibjörg Jakobsdóttir með eitt stig og 35% teignýting Grindvíkinga gerði þeim erfitt fyrir. Stundum vill tuðran ekki detta og þannig var það á löngum köflum hjá Grindavík. Frammistaða Frazier var þeirra haldreipi og mögulega hefði mátt dæla enn betur á hana í teignum svona eftirá að hyggja. 

 

Snæfellsmegin voru þær Palmer og Gunnhildur frábærar og Bryndís Guðmundsdóttir sem í fyrra fékk silfur í Laugardalshöll var mætt með kjafti og klóm í þennan leik, gerði 13 stig og reif niður 16 fráköst. Stórglæsileg bikartvenna. 

 

Sigrún Sjöfn Ámundadóttir opnaði leikinn með körfu í teignum fyrir Grindvíkinga en það voru Hólmarar sem áttu fyrsta áhlaupið og komust í 14-2 áður en gæsahúðin í Grindvíkingum hjaðnaði. 

 

Grindvíkingar eru bikarþjóð og sem slík var ekki langt að bíða fyrsta áhlaupsins og náðu gular 9-0 skvettu en Snæfell leiddi engu að síður 22-17 eftir fyrsta leikhluta þar sem María Björnsdóttir lokaði leikhlutanum á flautukörfu með einstefnuakstri upp endalínuna. Fjörugur og skemmtilegur fyrsti leikhluti með fyrirheit um flottan bikarúrslitaleik. 

 

Ingunn Embla átti flotta spretti komandi af bekk Grindavíkur í fyrri hálfleik og Frazier fór að láta til sín taka í öðrum leikhluta. Gunnhildur Gunnarsdóttir átti samt sýninguna en hún smellti niður fimm þristum í fyrri hálfleik og Snæfell leiddi 41-34 í hálfleik. Gunnhildur með 19 stig í fyrri hálfleik og Palmer farin að hóta þrennu með 8 stig, 7 fráköst og 6 stoðsendingar. Hjá Grindavík var Frazier með 17 stig en Grindvíkingar 1-11 í þristum. 

 

Varnir liðanna voru svona með besta móti í leiknum í þriðja leikhluta og Gunnhildur Gunnarsdóttir fékk lítið að hreyfa sig þar sem Grindvíkingar settu „overcoat“ á hana. Ströng gæsla en Snæfell svaraði því ágætlega þó Palmer hafi gerst sek um slæmar ákvarðanir undir lok leikhltuans og kippt á bekkinn af ekki svo kátum Inga Þór Steinþórssyni. Snæfell leiddi 59-52 eftir þriðja leikhluta og ljóst að lokaspretturinn yrði spennandi. 

 

Í fjórða leikhluta hélt söguþráðurinn sér, Grindavíkuráhlaup fengu of oft skamman endi hreinlega vegna einbeitingarskort. Snæfell fann sig einnig betur og betur gegn svæðisvörn Grindavíkur og þegar Sigrún Ámundadóttir minnkaði muninn í 65-60 með þrist fyrir Grindavík þá tók Snæfell kipp og sagði bless. Snæfell kláraði lokasprettinn 13-5 og fagnaði sínum fyrsta bikarmeistaratitli með 78-70 sigri. 

 

Magnaður úrslitaleikur tveggja öflugra liða þar sem Palmer fór mikinn í liði Snæfells. Vafalítð er margt sem Grindavík hefði getað gert betur en þær vantaði helst að fylgja betur eftir góðu köflunum sínum og fá skotin til að detta. Snæfell fórst það vel úr hendi að halda naumri forystu frá upphafi til enda en það er kúnst sem ekki öllum er gefin. 

 

Snæfell-Grindavík 78-70 (22-15, 19-19, 18-18, 19-18)

Snæfell: Haiden Denise Palmer 23/13 fráköst/10 stoðsendingar/5 stolnir, Gunnhildur Gunnarsdóttir 23, Bryndís Guðmundsdóttir 13/16 fráköst, Berglind Gunnarsdóttir 12/5 fráköst, Andrea Björt Ólafsdóttir 4, María Björnsdóttir 3, Helga Hjördís Björgvinsdóttir 0, Erna Hákonardóttir 0, Alda Leif Jónsdóttir 0, Sara Diljá Sigurðardóttir 0, Rebekka Rán Karlsdóttir 0, Hugrún Eva Valdimarsdóttir 0. 

Grindavík: Whitney Michelle Frazier 32/16 fráköst, Sigrún Sjöfn Ámundadóttir 11/17 fráköst/5 stoðsendingar/3 varin skot, Íris Sverrisdóttir 10, Ingunn Embla Kristínardóttir 10/4 fráköst/6 stoðsendingar, Björg Guðrún Einarsdóttir 6, Ingibjörg Jakobsdóttir 1, Helga Einarsdóttir 0, Halla Emilía Garðarsdóttir 0, Petrúnella Skúladóttir 0/5 fráköst, Jeanne Lois Figeroa Sicat 0, Hrund Skúladóttir 0, Viktoría Líf Steinþórsdóttir 0. 

Mynd/ Bára Dröfn Kristinsdóttir