Helgi kvaddi með bikartitli

KR hvert sem þú lítur

13.feb.2016  19:08 nonni@karfan.is

Lífið í íslenskum körfuknattleik er röndótt þessi dægrin, í það minnsta karlamegin því KR tryggði sér í dag sinn ellefta bikarmeistaratitil í sögu félagsins með 95-79 sigri á Þór Þorlákshöfn. Þar með eru KR-ingar ríkjandi bikarmeistarar, ríkjandi Íslandsmeistarar, deildarmeistarar síðustu leiktíðar og meistari meistaranna. KR, hvert sem þú lítur! Já lífið er röndótt og einn þeirra KR-inga á sérlega eftirminnilegan dag en það er Helgi Már Magnússon sem í fyrsta sinn varð bikarmeistari á ferlinum, var maður leiksins með 26 stig, 6 fráköst og 3 stoðsendingar og breiðasta brosið í bænum þennan daginn.


Þessi titill KR-inga var enginn göngutúr um grasagarðinn í Laugardal, Þór Þorlákshöfn seldi sig dýrt og fengu líka sinn skammt af vonda veðrinu í dómgæslunni. Þá sérstaklega miðherjinn Ragnar Nathanaelsson en að minnsta kosti tvær dýrar villur sem hann fékk dæmdar á sig voru í besta falli stórlega vafasamar. 

 

Eins og margir kannski bjuggust við áttu KR-ingar sterkan þriðja leikhluta og jafnvel enn sterkari fjórða leikhluta þar sem þeir settu 32 stig á Þórsara. Þorlákshafnarmenn þurftu að passa sig síðasta korterið með þá Vance og Ragnar í villuvandræðum og það tók vissulega nokkuð bit úr þeim í síðari hálfleik. Fjórir leikmenn KR settu 12 stig í leiknum eða meira og samstilling þeirra röndóttu og reynslan vissulega vógu þungt á lokametrunum.

 

Þrátt fyrir að KR-ingar hafi í flestum tilfellum reynt að tvímenna á Vance Hall gerði hann samt 10 stig á þá í fyrsta leikhluta, KR var þó með forystuna 22-15 og aðeins tveir leikmenn Þórsara búnir að skora á fyrstu tíu mínútunum. 

 

Í öðrum leikhluta fékk Þór meira framlag á sóknarendanum en Ragnar Nathanaelsson fékk snögglega sína þriðju villu sem var líkast til þvættingur og stóri maðurinn allt annað en sáttur með stöðu mála. Þór lét þetta ekki trufla sig um of heldur náðu forystunni og leiddu 39-40 í hálfleik. Vance Hall var með 15 stig hjá Þór í hálfleik og Ragnar með 3 stig og 11 fráköst. Hjá KR voru þeir Helgi Már og Ægir Þór báðir með 8 stig. 

 

Þriðji leikhluti og margir hefðu mátt segja sér hvað væri í vændum, KR náði hverju „stoppinu“ á fætur öðru og hélt Þór í 14 stigum í leikhlutanum, vörnin sem þeir spila svo vel að virka þennan leikhlutann og lítið bólaði á Vance Hall og Þórsurum blæddi fyrir vikið. KR leiddi 63-54 fyrir fjórða leikhluta og stóra spurningin í raun hvort Þór ætti séns á því að brjóta sig nærri meisturunum að nýju. 

 

Margar hverjar tilraunir Þorlákshafnarmanna voru strangheiðarlegar en þær báru ekki árangur. Stöku sinnum voru menn að gleyma sér og KR saumaði sig nánast fyrirhafnarlaust upp að körfunni, Craion líkaði það ekki illa þegar Ragnar fór af velli með fimm villur og lék þá lausum hala. Ef það er eitthvað sem KR kann þá er það að refsa og þegar þú hleður upp öllum þessum litlu refsingum sem eiga sér stað allan leikinn þá vega þær þungt. Verðskuldaður 95-79 sigur KR og frumraun Þórsara í Höllinni sem þeir þurfa alls ekkert að skammast sín fyrir. Hvað varðar dómgæslu í þeirra garð hafa þeir sem eitthvað eru ósáttir nokkuð til síns máls enda hverju liði dýrkeypt að hafa leikmann eins og Ragnar í villuvandræðum nánast heilan leik. 

 

Til hamingju KR-ingar með sigurinn og til hamingju íslenskur körfuknattleikur með troðfulla Laugardalshöll og uppselt! 

 

KR-Þór Þ. 95-79 (22-15, 17-25, 24-14, 32-25)

 

KR: Helgi Már Magnússon 26/6 fráköst, Michael Craion 17/13 fráköst, Ægir Þór Steinarsson 15/6 stoðsendingar, Brynjar Þór Björnsson 12, Björn Kristjánsson 9, Darri Hilmarsson 8, Snorri Hrafnkelsson 5, Pavel Ermolinskij 3/11 fráköst/9 stoðsendingar, Jón Hrafn Baldvinsson 0, Arnór Hermannsson 0, Vilhjálmur Kári Jensson 0, Þórir Guðmundur Þorbjarnarsson 0. 

Þór Þ.: Vance Michael Hall 34/6 fráköst, Ragnar Örn Bragason 11, Grétar Ingi Erlendsson 10/7 fráköst, Halldór Garðar Hermannsson 9, Emil Karel Einarsson 6, Ragnar Ágúst Nathanaelsson 5/19 fráköst, Davíð Arnar Ágústsson 3, Þorsteinn Már Ragnarsson 1, Jón Jökull Þráinsson 0, Magnús Breki Þórðason 0, Sveinn Hafsteinn Gunnarsson 0, Baldur Þór Ragnarsson 0. 

 

Mynd/ Bára Dröfn Kristinsdóttir