„Hann frétti að Kris Acox væri hjá Furman“

Vel fór á með Kristó og Katt Williams í Furman

25.jan.2016  22:39 nonni@karfan.is

Kristófer Acox stendur í ströngu þessi dægrin með Furman háskólanum í Bandaríkjunum. Í nótt leikur Furman gegn VMI skólanum en Furman vann mikilvægan og sterkan sigur gegn Wofford í síðasta leik. Kristófer segir Furman ekki hafa verið að standa sig á útivelli og í kvöld sé markmiðið að breyta því. Þó nóg sé að gera hjá okkar manni vílar hann það ekki fyrir sér að slaka á með elítunni vestan hafs en grínistinn og leikarinn Kat Williams heimsótti skólann á dögunum og eins og sönnum „bol“ sæmir var hent í eina mynd með stjörnunni.


Fyrir ykkur sem þekkið ekki til Katt Williams þá getið þið kíkt á kappann hér.

 

„Katt Williams frétti að Kris Acox væri að spila hjá Furman og vildi koma að sjá hvað væri uppi,“ sagði Kristófer Acox við Karfan.is í dag nokkuð borubrattur. Kristófer gaf okkur svo sönnu útgáfuna á endanum en hún var einhvern veginn á þennan veg:

 

„Hann þekkir „athletic counselorinn“ okkar og konuna hans sem er aðalþjálfari kvennaliðs Furman. Hann var að túra í Greenville og þau fóru að sjá sýninguna hans. Eftir á buðu þau honum að koma og spila körfu með einhverju fólki hérna í Furman. Þannig að Katt Williams mætti hérna með öllu fylgdarliðinu sínu og þeir tóku smá bolta,“ sagði Kristófer sem fékk ekki að vera með.

 

„Hann bannað mér að spila, sagði að ég væri of stór,“ sagði Kristófer og hló en Katt Williams hefur mikið gert úr fáum sentimetrum sínum m.a. í uppistandi sínu. „Þetta er topp náungi. Allt sem hann sagði var í gríni eða kaldhæðni.“

 

Við slepptum ekki okkar manni bara með einhverjar Hollywood-fréttir heldur tókum einnig púlsinn á boltanum hjá stráknum sem á leik í kvöld.

 

„Við höfum unnið bæði liðin sem spáð var fyrsta og öðru sæti í SoCon riðlinum. Við erum langbesta liðið í riðlinum þegar við spilum heima en strögglum verulega þegar við erum á útivelli. Við erum 8-1 á heimavelli og unnum þar Chattanooga sem spáð var fyrsta sæti og það var 15 stiga sigur. Svo unnum við Wofford núna á laugardag sem var eitthvað það rosalegasta sem ég hef upplifað. Við áttum líka harma að hefna síðan í úrslitum í fyrra. 

 

Við spilum á útivelli núna í kvöld á móti VMI sem við unnum mjög örugglega heima með 20 eða 30 stiga mun þannig að vonandi náum við góðum stigum í kvöld. Við höfum ekki enn unnið leik á útivelli í riðlinum okkar og aðeins tvo leiki yfir allt tímabilið svo við þurfum klárlega að bæta okkur þar.“

 

Kristófer er keppnismaður og vill alltaf gera betur, segir það að minnsta kosti þegar við innum hann eftir hans mati á sinni eigin frammistöðu til þessa.

 

„Allt í lagi bara, ég átti persónulega von á betra tímabili, maður vill alltaf gera betur en það er auðvitað nóg eftir. Ég hef ekki verið nægilega stöðugur og þarf því bara að lifa í „gymminu“ eins og maður segir til að byggja sig sjálfstraustið vel upp. Annars eru margir leikir sem ég hef verið mjög sáttur við á tímabilinu.“

 

Kristófer hefur leikið 20 leiki á tímabilinu þar sem hann er með 7,5 stig, 5,4 fráköst á 21,9 mínútu að meðaltali í leik. 

 

Nánar um tölurnar hjá Kristó til þessa
 

  GP GS MIN/G FG/G PCT 3PT/G PCT FT/G PCT PPG
Total 20 20 21.3 3.1-5.4 56.9 0.0-0.0 0.0 1.2-2.6 47.2 7.5
Conference 7 7 21.9 3.0-5.9 51.2 0.0-0.0 - 1.1-2.1 53.3 7.1
Exhibition 1 1 20.0 6.0-9.0 66.7 0.0-0.0 - 2.0-5.0 40.0 14.0

Home 9 9 22.4 4.6-6.6 69.5 0.0-0.1 0.0 2.2-4.2 52.6 11.3
Away 9 9 19.8 1.8-4.7 38.1 0.0-0.0 - 0.2-1.0 22.2 3.8
Neutral 2 2 22.5 2.5-4.0 62.5 0.0-0.0 - 1.5-3.0 50.0 6.5

Wins 10 10 23.4 4.5-6.8 66.2 0.0-0.1 0.0 2.3-4.4 52.3 11.3
Losses 10 10 19.1 1.7-4.1 41.5 0.0-0.0 - 0.2-0.9 22.2 3.6

November 6 6 21.0 1.7-3.7 45.5 0.0-0.0 - 1.8-3.5 52.4 5.2
December 7 7 20.9 4.4-6.6 67.4 0.0-0.1 0.0 0.9-2.4 35.3 9.7
January 7 7 21.9 3.0-5.9 51.2 0.0-0.0 - 1.1-2.1 53.3 7.1