"Hin liðin leggja áherslu á að ég fái ekki boltann"

07.jan.2016  13:35 emil@karfan.is

Sigurður Gunnar Þorsteinsson í viðtali

Sigurður Gunnar Þorsteinsson söðlaði um síðastliðið haust og flutti sig frá Solna í Svíþjóð til Thessaloniki í Grikklandi. Þar spilar hann með liðinu Doxa Pefkon í næst efstu deild Grikklands og hefur staðið sig með prýði. Hann er í stærra hlutverki hjá Doxa en hann var í hjá Solna og segist þurfa að hafa mikið fyrir hlutunum.


Við köstuðum í nokkrar laufléttar spurningar fyrir Sigga, sem sagði að hugur hans hafi alltaf stefnt aftur út eftir dvölina í Solna, og ekki hafi staðið til að koma aftur heim til Íslands og spila. Eins og sönnum Íslendingi sæmir spurðum við hann hvernig lífið á Grikklandi er að fara með hann.

„Okkur líkar mjög vel hérna í Thessaloniki. Þetta er milljón manna borg en andrúmsloftið í henni er eins og maður búi í smábæ. Veðrið hefur reyndar líka verið að leika við okkur og var hitinn núna um jólin milli 12-16 gráður og það var ekkert að skemma neitt.“

Sigurður segir að það sé klárlega breyting á því að fara til Doxa og að breytingin byggist aðallega á aðferðafræði þjálfaranna. „Í Solna áttum við að keyra upp hraðann í leiknum og sóknirnar áttu helst að klárast á fyrstu 14 sekúndunum, á meðan hér í Pefka þá á að stilla upp og hlaupa kerfin í gegn ef við fáum ekki hraðaupphlaup.
 A2 deildin töluvert sterkari en íslenska deildin

Grikkland er mikið körfuboltaland og er íþróttin gríðarlega stór. Það eru fjölmargar deildir í Grikklandi og eins og fram hefur komið spilar Sigurður í næst efstu deild. Í deildinni leynast margir reyndir kappar og eru leikmenn í liðunum þar sem bæði hafa spilað í Euroleague sem og fyrir gríska landsliðið. Fyrir vikið er deildin firnasterk. Sigurður sagði að A2 deildin væri töluvert sterkari en íslenska efsta deildin, þegar við báðum hann um að bera þær saman, og að stíllinn væri allt annar en heima.

„Það er mun skipulagðari bolti spilaður hérna og minna um run&gun eins og heima. Flest lið vilja spila 5á5 bolta og stilla upp ef hraðaupphlaupin eru ekki fyrir hendi.“

„Við upphafi móts var okkur spáð falli og ekki búist við að við myndum vinna marga leiki, þar sem þessi deild í ár er óvenjulega sterk og við með mjög ungt lið. Flestir af liðsfélögum mínum hafa aldrei spilað á þessu leveli. Við höfum klúðrað nokkrum leikjum sem við áttum að vinna en erum yfir pari miða við það sem var sett upp fyrir mót,“ sagði kappinn þegar við spurðum hann út í stöðu liðsins í deildinni en Doxa situr í 11. sæti deildarinnar í fríinu.

Hann telur að raunhæf markmið liðsins væri að stefna á að halda öruggu sæti í deildinni en liðið er búið að spila 11 leiki af 28 og flestir leikirnir hafa verið gegn liðunum í efri hlutanum. „Til þess að vera öruggir um sæti í þessari deild þurfum við að lenda í 9. sæti eða ofar. Neðstu 2 liðin falla, liðin sem verða í 13-10 sæti fara síðan í playoffs um hvert þeirra fellur líka.“
 


Grikkland gert hann að betri leikmanni

Sigurður segir að dvölin, það sem af er, hafi gert hann að betri leikmanni. Hann segir að hin liðin leggi mikla áherslu á að hann fái ekki boltann og fyrir vikið hefur hann þurft að hafa mun meira fyrir hlutunum. Það reynir mun meira á hann að finna sig opinn til að fá tækifæri til að skora og svo er hann í leiðtoga hlutverki hjá liðinu.

Sigurður var einn þeirra sem ekki náði inn í lokahóp íslenska landsliðsins fyrir Eurobasket 2015 og eðlilega eins og sönnum keppnismanni sæmir þá var hann fúll með að ná ekki alla leið. Hann hins vegar gefst ekki upp og þegar við spurðum hann hvort að hann telji að þessi færsla til Doxa, þar sem hann er í stærra hlutverki og spilar meira en í Solna, komi til með að verða til þess að hann geri harðari atlögu að næsta lokahóp sagði Sigurður: „Ég vona að þessi reynsla hér hjálpi mér í því já.“

Það sem af er vetri er Sigurður að spila í kringum 28 mínútur í leik og á þeim tíma er hann að skora 10,7 stig taka 6,4 fráköst. Þar fyrir utan er hann að verja 1,2 bolta í leik sem skilar honum í fjórða sæti yfir flest varin skot að meðaltali í deildinni.

Deildarkeppnin hefst aftur á laugardaginn næstkomandi þegar Doxa Pefkon mætir botnliði Peristeri og um sjónvarpsleik er að ræða. Fyrir þá sem hafa aðgang að ERT 2 geta þeir fylgst með Sigurði í grísku A2 deildinni.Myndir/ Facebooksíða Doxa