Tek hverjum leik fagnandi

07.sep.2015  07:00 Skúli Sig (skuli@karfan.is)

Sigmundur Herbertsson brýtur blað í sögu íslenskra körfuknattleiksdómara

Sigmundur Herbertsson varð okkar fyrsti dómari til að dæma á lokakeppni EM en hann hóf leik þegar Litháar og Úkraníumenn mættust á fyrsta degi Eurobasket á laugardag.  Stemmningin rafmögnuð enda tvær risa körfuboltaþjóðir þar á ferð. "Ég dæmdi leik Lítháa og Úkrainu sem var æsispennandi til loka. Litháar voru eins og á heimavelli eða um 9000 þús og svakaleg stemming og hávaði. Það fór þannig að þeir unnu með einu stigi en Úkraínumenn áttu lokaskotið sem geigaði." sagði Sigmundur í viðtali við Karfan.is

 

En hvernig er hefðbundin dagur í lífi Eurubasketdómara ?

"Undirbúningur fyrir þennan leik eins og aðra hjá okkur hófst í raun kl 08:30 eins og alla daga með útihlaupi. Við hlaupum með fitness - þjálfara frá FIBA og svo er teygt vel á eftir. Svo tekur við morgunmatur og þá fundur þar sem komum saman alla morgna og förum yfir leiki gærdagsins. Hér er instructor frá FIBA sem gefur okkur feedback eftir hvern leik og við skoðum klippur strax eftir leik."

Sigmundur sagði stemmninguna og andrúmslofti í Riga algerlega einstakt þegar kemur að keppninni.

"Þetta er bara svo langt frá öllu sem ég hef kynnst og frábær upplifun. Áhorfendur, stemmingin og ástríðan, þetta er alveg magnað. EuroBasket hér í Riga er númer eitt, tvö og þrjú. T.d. þegar við förum í leikina þá er það í lögreglufylgd þar sem allir víkja og farið yfir á rauðu ljósi í forgangsakstri ef þurfa þykir. Þetta er eitthvað sem maður á ekki að venjast. Leikurinn gekk vel og tel ég að við dómararnir höfum komist vel frá okkar verki."

Fylgst vel með atferli og þreki dómara
"Við dæmum hér með Pulsometer þar sem hægt er að fylgjast með öllu sem lítur að líkamlegu atferli. Hvað við hlaupum
mikið og einnig hversu fljótir við erum að jafna okkur eftir spretti og annað slíkt. Ég á eftir að sjá niðurstöðurnar úr leiknum
og það verður gaman að sjá hversu hjartslátturinn fór hátt upp við þessar aðstæður :) Hvað framhaldið varðar á svo eftir að koma
í ljós en ég tek hverjum leik fagnandi." sagði Sigmundur að lokum.