Meistaraseiglan skilaði KR sigri í Grafarvogi

12.jan.2011  20:14
 
Íslandsmeistarar KR lentu í töluverðu basli í Grafarvogi í kvöld þegar röndóttar mörðu sigur á nýliðum Fjölnis 77-82. Góð barátta Vesturbæinga og þá sérstaklega í sóknarfráköstum vó þungt í andarslitrum leiksins. Chazny Morris leiddi KR í kvöld með 25 stig og 5 fráköst en hjá Fjölni var Inga Buzoka með 23 stig og 15 fráköst. KR gekk fínt að halda aftur af Natöshu Harris sem skoraði 20 stig, tók 8 fráköst og gaf 8 stoðsendingar og því tókst KR að halda þessum magnaða leikmanni undir meðtaltalinu sínu í öllum helstu tölfræðiþáttum leiksins.
Gular úr Grafarvogi hófu leikinn með látum, komust í 4-0 og skömmu síðar í 14-7 eftir þriggja stiga körfu frá Birnu Eiríksdóttur. Töluvert skorað á fyrstu andartökum leiksins en í stöðunni 20-15 Fjölni í vil stoppuðu liðin í götin og skoruðu sín hvor fjögur stigin það sem eftir lifið leikhlutans og því leiddu gular 24-19 eftir fyrstu 10 mínúturnar.
 
Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir var lífleg að vanda í liði KR og skoraði 10 stig í fyrri hálfleik hjá gestunum og henni gekk þokkalega að halda aftur af hinni mögnuðu Natöshu Harris. Annar leikhluti var jafn en Fjölniskonur voru í bílstjórasætinu og leiddu 32-26 eftir annan þrist frá Birnu.
 
KR tókst þó hægt og bítandi að fikra sig nærri fjölni og Chazny Morris jafnaði metin í 39-39 þegar 3 sekúndur voru til hálfleiks. KR-ingar voru svo klaufar að brjóta á Bergþóru Tómasdóttur sem reyndi erfitt flautuskot frá miðjum velli. Bergþóra þakkaði pent fyrir sig, setti öll þrjú vítin og Fjölnir leiddi því 42-39 í leikhléi.
 
Tasha Harris var með 12 stig hjá Fjölni í leikhléi en þær Chazny Morris og Guðrún Gróa voru báðar með 10 stig í liði KR.
 
Meistarar KR voru ekki lengi að jafna metin og staðan 44-44 eftir þriggja stiga körfu frá Margréti Köru Sturludóttur sem tók myndarlegar rispur á köflum í kvöld. Fjölniskonur slitu sig þó strax aftur frá 48-44 og við það tóku KR-ingar leikhlé.
 
Enn voru KR-ingar ekki lengi að jafna naumt forskot Fjölnis og staðan 53-53 eftir tvo þrista frá Köru og Morris í jafn mörgum sóknum. Eftir því sem leið á leikhlutann hertu KR-ingar tökin, léku góða vörn og nokkrir dómar í leiknum féllu með þeim, svona allt gekk upp kafli og staðan 55-61 fyrir KR.
 
Birna Eiríksdóttir átti, að hún hélt, lokaorðið í þriðja leikhluta með þriggja stiga körfu og minnkaði muninn í 58-61 en Chazny Morris fékk boltann, brunaði upp völlinn og tók flautuskot úr erfiðri stöðu og hitti, staðan því 58-64 fyrir KR og 10 mínútur til leiksloka og von á skemmtilegum lokasprett þar sem þriðji leikhluti var líflegur og einkenndist af góðri baráttu á báða bóga.
 
Framan af fjórða leikhluta virstust Fjölniskonur líklegar til afreka en þá hrökk meistaramaskína KR í gang, í einni svipan var staðan orðin 63-73 KR í vil og gestirnir komnir í kunnuglegt bílstjórasæti sem þeir gáfu ekki eftir.
 
Á lokasprettinum eygði Fjölnir veika von um að komast aftur við hlið KR en Vesturbæingar rifu þá niður hvert sóknarfrákastið á fætur öðru, brenndu þannig upp töluvert af leiktímanum og höfðu að lokum góðan 77-82 sigur á baráttuglöðum nýliðum Fjölnis.
 
Fjölniskonur eiga hrós skilið fyrir frammistöðu sína í kvöld en hvað sem henni líður geta þær ekki flúið þann raunveruleika að vera á botni deildarinnar.
 
Þær Natasha, Inga, Birna og Erla Sif fóru fyrir Fjölni í kvöld á meðan Chazny, Margrét Kara og Guðrún Gróa leiddu KR áfram.
 

Heildarskor:
 
Fjölnir: Inga Buzoka 23/15 fráköst, Natasha Harris 20/8 fráköst/8 stoðsendingar/5 stolnir, Erla Sif Kristinsdóttir 14/4 fráköst, Birna Eiríksdóttir 11/5 fráköst, Bergþóra Holton Tómasdóttir 7/5 fráköst/7 stoðsendingar, Eva María Emilsdóttir 2, Heiðrún Harpa Ríkharðsdóttir 0, Dagbjört Helga Eiríksdóttir 0, Margrét Loftsdóttir 0, Sigrún Anna Ragnarsdóttir 0.
 
KR: Chazny Paige Morris 25/5 fráköst, Margrét Kara Sturludóttir 19/6 stoðsendingar, Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir 13/7 fráköst, Signý Hermannsdóttir 8/6 fráköst/4 varin skot, Hafrún Hálfdánardóttir 8/7 fráköst, Helga Einarsdóttir 4/5 fráköst, Þorbjörg Andrea Friðriksdóttir 3, Hildur Sigurðardóttir 2, Bergdís Ragnarsdóttir 0, Jóhanna Björk Sveinsdóttir 0, Rut Konráðsdóttir 0, Aðalheiður Ragna Óladóttir 0.
 
Dómarar: Karl Friðriksson og Davíð Hreiðarsson
 
Ljósmynd/ Tomasz Kolodziejski – tomasz@karfan.is – Margrét Kara Sturludóttir sækir að Natöshu Harris í Grafarvoginum í kvöld.
 
Umfjöllun: Jón Björn Ólafsson – nonni@karfan.is