Darko orðinn drengur góður?

15.okt.2007  07:41

09:40

 

{mosimage}

 

 

Leikmaðurinn sem var valinn á undan Dwyane Wade og Carmelo Anthony í nýliðavalinu 2003 hefur gert fátt annað en valda vonbrigðum í NBA deildinni og á sínum stutta tíma er hann nú kominn til þriðja liðsins. Hér er vitaskuld verið að ræða um hinn ekki svo geðþekka Darko Milicic sem nýverið var sektaður um 13.770 $ fyrir gróf ummæli um dómara í Evrópukeppninni eftir að Serbar töpuðu gegn Grikkjum. Milicic reynir nú enn eina ferðina að koma NBA ferli sínum á flug og nú með Memphis Grizzlies. Athygli vekur að þessi leikmaður er með ekki svo frábrugðinn samning og stórstjarna Grizzlies, Pau Gasol, eða samning upp á 21 milljón $ á þriggja ára tímabili. Hverju skyldi það sæta?

 

,,Ég er hættur að láta hina og þessa hluti angra mig. Ég er ekki reið manneskja heldur vil ég aðeins spila körfubolta. Allt sem á undan er gengið er liðin tíð,” sagði Milicic við fjölmiðla Vestanhafs fyrir skemmstu.

 

Eins og áður greinir hefur Milicic valdið gríðarlegum vonbrigðum í NBA deildinni og hefur hann mátt þola háð og stríðni fjölmiðla sem einhver versti annar valkostur nýliðavalsins í sögu deildarinnar. Körfuknattleiksunnendur Vestanhafs gengu svo langt að lýsa Milicic sem hinum mennska sigurvindli. Meiningin þar á bak við var sú að hinn fornfrægi þjálfari Boston Celtics, Red Auerbach, var vanur að kveikja sér í vindli þegar hann taldi víst að Bostonsigur væri í höfn, sama þó leikurinn væri enn í gangi. Líkingin gaf það svo til kynna að þegar Milicic væri kominn inn á leikvöllinn væri sigur Pistons í höfn. Milicic var valinn til Pistons í nýliðavalinu þegar Larry Brown var kallinn í brúnni og fékk Milicic ekki að leika undir hans stjórn nema öruggur sigur Pistons væri í uppsiglingu. Fremur daprar aðstæður til að spila við og ljóst að leikmaðurinn var ekki í náðinni hjá Brown.

 

{mosimage}

 

Eftir dapran tíma hjá Pistons var Milicic skipt til Orlando Magic í febrúar 2006 og náði ekki að lifa undir væntingum sem til hans voru gerðar. Þar á bæ var hann einvörðungu með 5 stig á leik, 3,3, fráköst á um 15 mínútum í leik að jafnaði. Eitthvað hafa margir umboðsmenn og þjálfarar séð í leikmanninum og því er það kannski ástæðan fyrir því að Grizzlies eru tilbúnir að veðja milljónum Bandaríkjadala á hinn kjaftfora leikmann sem virðist sneyddur öllum hæfileikum inni á vellinum.

 

Framkvæmdastjóri Grizzlies sem og Pau Gasol hafa trú á því að Milicic geti blómstrað og hefur leikmaðurinn sjálfur gefið það út að með veru sinni hjá liðinu sé hann í fyrsta sinn að njóta þess að vera NBA leikmaður.

 

Grizzlies hafa því trú á þessum Svarta-Pétri deildarinnar en liðið var með versta sigurhlutfallið í deildinni á síðustu leiktíð, 22-60, svo Darko Milicic má heldur betur standa undir væntingum ef hann ætlar ekki að bæta enn á það háð og spott sem hann hefur þurft að lifa við í deildinni.

 

,,Ég er spenntur fyrir því að vera kominn í nýtt lið og fá möguleika á nýju upphafi. Ég veit hvað ég er fær um og mun ekki hlusta á það sem aðrir hafa að segja. Ég er ánægður þessa stundina,” sagði Darko Milicic, endurfæddur körfuknattleiksmaður, þangað til annað kemur í ljós.

 

nonni@karfan.is

{mosimage}