Umfjöllun og myndir:

Njarðvík gerði góða ferð norður

07.des.2017  21:40 Oli@karfan.is

 


Njarðvíkingar gerðu góða ferð norður í land í kvöld og unnu sterkan sigur á Tindastól í Síkinu á Sauðárkróki.  Gestirnir virtust miklu tilbúnari í leikinn en heimamenn og eftir jafna byrun náðu þeir góðri 12 stiga forystu fyrir hálfleik með Loga Gunnars í fantaformi.  Stólar voru andlausir og náðu aldrei upp þeirri baráttu sem oft hefur sést hjá þeim í haust og það segir sig sjálft að lið sem fær á sig 58 stig í fyrri hálfleik er ekki að fara að vinna leiki.  Njarðvíkingar spiluðu fast og komust upp með það hjá frekar slökum dómurum leiksins en heimamenn geta ekki öðru kennt um þetta tap en eigin andleysi.  Menn vinna ekki leiki með því að spila vörn bara í 3-4 mínútur.
 

Þáttaskil:

 Eftir tiltölulega jafnar fyrstu 15 mínúturnar þá sigu Njarðvíkingar framúr og mestu munaði þar um 3 þrista frá Vinson og Loga sem voru funheitir í fyrri hálfleik.  Tindastóll náði aldrei að brúa þetta bil.

 

Tölfræðin lýgur ekki:

Njarðvíkingar nýttu sín skot mun betur í leiknum, hittu úr 58% sinna skota innan þriggja stiga línunnar og 52% utan hennar á meðan sömu tölur voru 47% og 35% hjá Tindastól.  

 

Hetjan: 

Logi Gunnarsson átti þennan leik þrátt fyrir að hafa verið rekinn úr húsi undir lokin.  Hann var með 100% hittni innan 3ja stiga línunnar og 70% utan hennar og það er magnað að fylgjast með þessari kempu í þessum ham.  Eins og vindurinn.  Brandon Garrett var eini maðurinn með sóknarlífsmarki í Tindastólsliðinu.

 

Kjarninn: 

Njarðvíkingar komu í þennan leik tilbúnir í að berjast til enda og unnu sanngjarnan sigur.  Tindastóll hefur nú tapað 2 leikjum í röð eftir 9 leikja sigurhrinu og ljóst að meiðsli og landsleikja hlé hafa komið illa niður á liðinu.

 

Tölfræði leiksins

 

Myndasafn (Hjalti Árnason)

 

Mynd: Viðar Ágústsson sækir að körfu Njarðvíkur