Fín frammistaða í tapi gegn Rússum

13.ágú.2017  11:14 Skúli Sig (skuli@karfan.is)

82:69 lokastaðan - Martin með 22 stig

 

Íslendingar töpuðu fyrir Rússum nú rétt í þessu á æfingamóti sem fram fer í Kazan í Rússlandi. 82:69 varð lokastaða leiksins en í hálfleik leiddu Rússarnir 48:31.  Martin Hermannsson var stigahæstur okkar manna í dag með 22 stig og næstur honum var Haukur Helgi Pálsson með 12 stig. 

 

Rússarnir voru sterkir framan af og voru fljótlega komnir í 10 stiga forystu og bættu svo vel í í öðrum leikhluta og leiddu sem fyrr segir með 17 stigum í hálfleik.  Frábær þriðji leikhluti hjá okkar mönnum varð þess valdandi að Rússar skoruð aðeins 12 stig í leikhlutanum og staðan 60:54.  Þessi kafli íslenska liðsins hélt svo áfram aðeins inní fjórða leikhluta og minnti óneitanlega hina sálugu Rocky IV þegar höggin höfðu dunið á hetju myndarinnar frá Ivan Drago en á lokakaflanum náði Balboa sér tilbaka og að lokum lagði Rússann.  

 

Öfugt við þá ágætu kvikmynd þá byrjuðu höggin aftur að dynja á okkar mönnum og í hlutverki Drago var bakvörðurinn Michail Kulagin sem var sjóðandi heitur í dag og skoraði 20 stig fyrir Rússana.  Þrátt fyrir góða baráttu frá okkar mönnum þá tókst ekki að landa sigri gegn heimamönnum sem svo sannarlega hefðu verið óvænt úrslit. 

 

Stig Íslands: Martin 22, Haukur 12 (6 stoðir) , Hörður 11, Hlynur 7, Tryggvi 5 (6 fráköst), Kristó 4, Ægir 3, Elvar 3, Pavel 2