Guðmundur Ingi:

"Þurfa stóra leiki frá Reggie og Gumma"

23.mar.2016  00:13 davideldur@karfan.is

Í aðdraganda þriðja leiks Keflavíkur og Tindastóls

 

Þriðji leikur 8 liða úrslitaeinvígis Keflavíkur og Tindastóls fer fram suður með sjó, í TM Höllinni, kl 19:15 í kvöld. Tindastóll vann fyrsta leik liðanna fyrir síðustu helgi í Keflavík og stal þar með heimavallarréttinum af þeim, gerði svo enn betur og vann einnig annan leik einvígissins á sínum heimavelli síðasta sunnudag. Við ræddum létt við þjálfara drengjaflokks Keflavíkur, Guðmund Inga Skúlason, um hvað honum þætti um rimmuna hingað til sem og hvað Keflavík þyrfti að gera til þess að taka sig til í andlitinu.

 

Hvernig finnst þér serían hafa verið?

Serían hefur verið mjög erfið fyrir Keflvíkinga. Bæði stuðningsmenn og örugglega leikmenn. Eins og langflestir bjuggust við þá hafa Tindastólsmenn verið sterkari aðilinn í þessari seríu og Keflvíkingar ekki náð að sýna sitt rétta andlit hingað til. Serían hefur samt verið alveg hrikalega skemmtileg og ef þú ert hlutlaus áhorfandi þá er þetta örrugglega serían sem er að spila skemmtilegasta körfuboltann.

 

 

Afhverju leiðir Tindastóll einvígið 2-0?

Það er rosalega einfalt. Tapaðir boltar og fráköst. Tindastóll eru að koma miklu undirbúnari í leikina, bæði andlega og tæknilega (scouting). Í leik 1 var hausinn á Keflavík bara alls ekki skrúfaður rétt á og lykilmenn voru að klikka á því að hafa andlega hlutann í lagi.

Í leik 2 voru það svo bara fráköst sem gáfu stólunum sigurinn á silfurfati. Þegar þú leyfir andstæðingnum að rífa niður 23 sóknarfráköst þá ertu ekki að fara að vinna neinn leik og hvað þá ef liðið er jafn vel mannað og Tindastóll. Svo þurfa Keflvíkingar virkilega að finna jafnvægið í sóknarleiknum á milli þess að hlaupa/skjóta og að þurfa að stilla upp og spila "half-court" bolta. Þetta batnaði aðeins í leik 2 en þeir þurfa að vera að slútta miklu fleiri sóknum með auðveldum körfum.

 

 

Hvað þarf Keflavík að gera til þess að vinna næsta leik?

Stíga út og fækka töpuðum boltum. 19.5 tapaðir boltar að meðaltali í 2 leikjum er bara alltof mikið. Svo vil ég bara fá alvöru brjálæði í vörn þeirra. Þar sem menn eru virkilega að berjast fyrir hvorn annan. Þurfa einnig að fá stóra leiki frá Reggie og Gumma. Þeir settu samtals 9 stig í síðasta leik, en það gengur ekki í úrslitakeppni. Þar þurfa máttarstólparnir að skila sínu. Svo er það þetta jafnvægi sem ég talaði um. Valur þarf að stjórna leiknum miklu betur og finna jafnvægið. Eins og ég tók fram. Hvænar þeir ætla að “runna og gunna” og hvænar þeir ætla að stilla upp og spila "half court". Valur er með það mikla körfuboltagreind að hann getur það auðveldlega.

 

 

Á Keflavík einhvern möguleika á að koma til baka og tryggja sér sæti í undanúrslitum?

Algjörir fagmenn að stjórna liðinu sem þekkja öll horn körfuboltans út og inn, svo auðvitað, Keflavík lætur ekkert sópa sér út úr 8 liða úrslitum. Leikmenn þurfa bara að mæta tilbúnir í stríð.